Frábær þátttaka í víðavangshlaupinu
– á sumardaginn fyrsta í Grindavík
Glæsileg þátttaka var í víðavangshlaupinu í Grindavík á sumardaginn fyrsta. Alls tóku um 350 manns þátt í hlaupunum eða um 170 grunnskólabörn og um 130 leikskólakrakkar og forráðamenn þeirra og svo 7 í fullorðinsflokki. Bláa Lónið gaf alla verðlaunapeninga og vetrarkort í fyrsta sæti fyrir 5.-7. bekk, 8.-10. bekk og fullorðinsflokk. Veðrið var með besta móti. Boðið var upp á ávexti og vatn fyrir keppendur.
Áralöng hefð fyrir fyrir víðavangshlaupinu á sumardaginn fyrsta og að vanda var vel mætt. Í grunnskólanum er keppt um svokallaðan Mætingabikar og þar mætti 4. V best (78%), í 2. sæti var 2. M (76%) og í 3. sæti 3. M (65%).
Aðalatriðið var engu að síður að hafa gaman af því að taka þátt í skemmtilegu víðavangshlaupi. Keppendur voru á öllum aldri eða frá eins árs í kerru í fylgd foreldris og upp í 78 ára í fullorðinsflokki. Foreldrafélag Grunnskóla Grindavíkur sá um skipulagningu og undirbúning í samvinnu við grunnskólann og frístunda- og menningarsvið bæjarins.