Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frábær óperusýning
Sunnudagur 2. september 2012 kl. 07:22

Frábær óperusýning

Óperusýning í Reykjanesbæ er langt frá því að vera sjálfsagður atburður á Suðurnesjum. Upppsetning Norðuróps á Eugence Onegin eftir Tschaikovsky var sett upp í Hljómahöllinni um síðustu helgi og sýnd tvisvar. Sl. sunnudagskvöld átti undirritaður þess kost að sækja hana og skemmti ég mér konunglega.

Er skemmst frá að segja að sýningin í heild var metnaðarfull, valinn maður í hverju rúmi og sviðsmynd og lýsing glæsileg. Þættirnir 3 voru settir upp á tveimur mismunandi stöðum í húsinu sem þýddi að áheyrendur þurftu að færa sig á milli staða sem braut þetta skemmtilega upp og markaði skörp skil á milli þátta, bæði í tíma og rúmi.

Söngvararnir voru í misstórum hlutverkum en stóðu sig allir mjög vel. Heimamennirnir Jóhann Smári Sævarsson, í hlutverki Eucgence Onegin, og Bylgja Dís Gunnarsdóttir, í hlutverki Tatyönu,  voru frábær í sínum hlutverkum. Arían sem Tatíana syngur í 2. senu fyrsta þáttar, sem hlýtur að vera ein sú erfiðasta í óperuheiminum, var frábærlega flutt af Bylgju. Rósalind Gísladóttir, Dagný Jónsdóttir og Hörn Hrafnsdóttir skiluðu allar sínu mjög vel ásamt öðrum í smærri hlutverkum. Kórinn var mjög flottur og greinilegt að kórfélagar, sem sumir voru að stíga sín fyrstu spor á óperusviði, höfðu mjög gaman af því sem þeir voru að gera. Dansarar frá Bryn Ballet settu mjög skemmtilegan svip á sýninguna þegar sagan færðist inn í veislusali yfirstéttarinnar, sem birtist í formi fursta nokkurs.

Það væri of langt mál að fara að nefna alla hér sem komu við sögu í þessari uppfærslu en heilt yfir var þetta frábær uppsetning sem staðfestir að aðstandendur sýningarinnar eru áræðið fólk sem óhrætt ræðst í metnaðarfullar, og örugglega kostnaðarsamar, uppsetningar sem þessar. Slíkt framtak verður seint fullþakkað og þurfum við Suðurnesjamenn að standa við bakið á þessum frumkvöðlum og sýna stuðning okkar í verki m.a. með því að mæta vel á svona viðburði. Það sem kannski mætti setja spurningarmerki við er sú staðreynd að þótt mjög áhugasamir óperuunnendur þekki þetta verk líklega vel telst það örugglega framandi fyrir hinn venjulega íbúa á Suðurnesjum. Það hefði því mátt reikna með að fyrir valinu yrði þekktara stykki, eins og Tosca, sem Norðuróp setti upp á svo eftirminnilegan hátt í Keflavíkurkirkju í fyrra, var. Væntanlega ræðst þó verkefnavalið að talsverðu leyti af því hvaða söngvarar og raddir eru í hópnum hverju sinni og því að söngvararnir vilji fást við krefjandi hlutverk og safna í reynslubankann.

Í þessari uppfærslu voru fleiri atvinnumenn eins og t.d. Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór, og Viðar Gunnarsson, bassi, sem voru mjög góðir. Aría Lenskís (Jóhanns Friðgeirs) í lok 2. þáttar var frábærlega sungin.

Hljóðfæraleikararnir stóðu sig mjög vel. Á píanóinu, í hlutverki heillar hljómsveitar, var þaulreyndur píanisti úr óperuheiminum, Antonia Hevesi. Með henni léku Hlín Erlendsdóttir á fiðlu,  Dagný Marinósdóttir á þverflautu og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir á harmoniku. Helga var reyndar nálægt því að stela senunni með snilldar harmonikuleik, bæði tæknilega og músíkalskt.
Aðstandendur Norðuróps, með Jóhann Smára Sævarsson í fararbroddi, eiga miklar þakkir skildar fyrir þetta verkefni og hlakka ég til að sjá og heyra það sem þetta atorkusama fólk mun aðhafast á næstu misserum.

Kjartan Már Kjartansson

(Röng undirskrift var á þessari umfjöllun í Víkurfréttum í vikunni. Beðist er velvirðingar á því).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024