Frábær ferð í Vogafjöru
Í gær, fimmtud. 9. sept. 2010, fór 7. bekkur Stóru-Vogaskóla í magnaða fjöruferð. Við erum nefnilega að læra um lífið í sjónum og fjörunni. Það þurfti engu til að kosta því við fórum labbandi með fötur, plastpoka og myndavél. Við fórum niður í fjöruna við Sæmundanef, sem er við enda Hvammsgötu. Við komumst ótrúlega langt út því nú varr mjög stór straumur. Við vorum í fjörunni kl. 11:30 – 12:20 en lágfjaran var kl. 12.50. Við vorum sem sagt á útfalli sem er öruggara því þá er ekki hætta á að lenda á flæðiskeri. Það var gaman að horfa til baka og sjá hvað við vorum komin langt frá þorpinu og einnig gaman að sjá hvað við vorum komin nálægt Vogastapa. Við gengum þarna um svæði sem venjulega er farið um á bátum.
Við gengum fyrst að gömlu flaki eikarskips sem hét Hansavog og enn sést í á fjöru. Strákarnir voru fljótir að átta sig á legu þess og fundu nokkra gljáfægða stóra koparnagla sem stóðu hættulega út í loftið. Flakið reyndist vera 12 m langt. Við gengum á sléttum mjúkum botni út í flakið og reyndist það vera fjörumór. Mór er hálfrotnaður votlendisgróður sem var áður stunginn upp, þurrkaður og notaður sem eldiviður. Þarna er býsna stórt svæði þakið fjörumó, sem minnir okkur á að allt var það eitt sinn gróið mýrlendi. Við gengum fram hjá – og uppá – mannhæðar háa hraunhóla (sker) sem voru þaktir ýmiss konar þangi. Gaman var að hugsa til þess að nokkrum klukkutímum síðar yrðu þeir allir komnir á kaf.
Nemendur voru mjög áhugasamir að skoða og fundu æði margt spennandi. Við fundum ótal tegundir af bæði þörungum og dýrum. Við fundum dvergþang, klapparþang, bóluþang, klóþang með þangskeggi, skúfaþang, sagþang, söl, fjörugrös, maríusvuntu, þarmþörung (slavak), skollaþveng, kerlingarhár, marinkjarna, beltisþara og stórþara. Svo fundum við klettadoppu, þangdoppu, nákuðung, rataskel, kambskel, öðuskel, kúfskel, bogkrabba (sumir voru einmitt að skipta um skel), kuðungakrabba (einbúakrabba) og margt fleira. Við tókum slatta með okkur í fötum til að rannsaka betur í skólanum síðar.
Við vorum kannski mest hissa þegar nemendur fundu eitthvað ljós-ryðbrúnt streyma upp úr sjónum á nokkrum stöðum á malarbotni. Þeim datt fyrst í hug eitthvað dýr en mér datt í hug að við hefðum fundið olíulind! Við nánari athugun hallast ég að því að þetta hafi verið fjöruvötn, þ.e. ferskvatnsuppsprettur sem eru hér víða í fjörum og Vatnsleysuströndin dregur líklega nafn sitt af. En hvers vegna var svona mikið af ryðbrúnum kornum í vatninu? Þetta minnti mjög á mýrarvatn. Gæti skýringin verið sú að þetta sé mýrarrauði úr gömlu mýrinni sem fjörumórinn ber vitni um? Þessar ryðrauðu uppsprettur voru ca. 50 metra utan við jaðar fjörumósins og u.þ.b. 200 m frá sjávarbakkanum.
Nú eru menn í óða önn að leggja nýtt skólpfrárennsli það langt út í sjó að fjaran í Vogum verður ómenguð þegar því er lokið seint í haust. Þá opnast þarna stór og merkilegur undraheimur til útivistar. Á stórstraumsfjöru opnast þarna býsna stórt og dularfullt svæði til að rannsaka og njóta.
Ég vil að lokum hvetja foreldra til að banna börnum að fara niður í fjöruna nema í fylgd með fullorðnum. Það er lífshættulegt að lenda á flæðiskeri ef maður gætir ekki að sér þegar þegar sjór fellur að. Öruggast er að fara í fjöru á útfalli, þ.e. þegar það er að lækka í sjónum.
Í kvöld kl. 19 verður sjávarstaðan mjög há og eins víst að sjórinn flæði einhver staðar yfir bakkana. Það kemur sér vel að nú skuli vera kyrrt veður. Ef slíku stórstraumsflóði fylgir mikið brim og vindur af hafi er hætta á að sjór gangi á land og valdi skaða. En í dag er sjórinn bara yndislegur og friðsamur, alveg í samræmi við veðráttuna í sumar og haust.
Þorvaldur Örn Árnason
náttúrufræðikennari við Stóru-Vogaskóla.
Efsta myndin: Hópurinn nýlagður af stað niður í fjöruna við Sæmundarnef.
Skipsflakið reyndist vera um 20 m langt. Slétti botninn í kring er fjörumór.
Oddhvass eirnagli úr flakinu stóð upp úr sandinum. Heppni að enginn steig á hann.
Veiðiskapur á a.m.k. 2 faðma dýpi. Þarna veiddist mest af kuðungakröbbum.
Vinkonur á strigaskóm – með allt sitt á þurru. Stóru-Vogaskóli í baksýn.
Vatn með mýrarrauða (?) sprettur upp úr sjávarbotninum.