Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frábær farsi hjá leikfélaginu
Föstudagur 12. apríl 2013 kl. 10:00

Frábær farsi hjá leikfélaginu

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi um síðustu helgi bráðfyndinn farsa, Með vífið í lúkunum, eftir Ray Cooney. Leikstjóri er Oddur Bjarni Þorkelsson. Með vífið í lúkunum fjallar um John Smith sem er ósköp venjulegur leigubílstjóri sem óvart, alveg óvart, er giftur tveimur konum. Til að þær viti ekki hvor af annarri þarf hann að vera býsna vel skipulagður en dag nokkurn lendir hann í slysi og þá riðlast skipulagið allt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Til að reyna að bjarga málunum spinnast upp ótrúlegustu lygar og flækjur sem gera leikritið að eldfjörugum og bráðskemmtilegum farsa.

Það var ljóst á frumsýningu verksins að það féll vel í kramið hjá áhorfendum. Það var hlegið endalaust og stundum hreinlega grenjað úr hlátri. Leikarar fengu mikið klapp í lok sýningar og óhætt að mæla með kvöldstund í Frumleikhúsinu. Næstu sýningar eru á föstudag, laugardag og sunnudag kl. 20:00. Miðapantanir eru í síma 421 2540.

Víkurfréttir leituðu til tveggja áhorfenda af frumsýningu og báðu þá um að setja niður nokkrar línur um upplifun sína af verkinu.

Verkjaði í kjálkana í lok sýningar
„Með Vífið í lúkunum er snilldarstykki, vel skrifað og félagar í leikfélagi Keflavíkur fara vel með það. Sýningin rúllar áfram á góðu tempói og varla kemur dauður punktur. Salurinn veltist um af hlátri og mig verkjaði í kjálkana í lok sýningar. Þetta er sannkölluð þriggja klúta sýning, hláturinn lengir lífið!“
- Gerður Pétursdóttir.

Fáránlega gott!
„Við hjónin vorum þess heiðurs aðnjótandi á föstudaginn síðasta að sjá og njóta frumsýningar Leikfélags Keflavíkur á leikritinu „Með vífið í lúkunum“ eftir breska leikskáldið Ray Conney í Frumleikhúsinu.  Farsinn er sprenghlægilegur. Leikarar í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar hafa svo frábært vald á túlkun sinni að unun er að. Segir af raunum herra Smith leigubílstjóra sem kvæntur er tveimur konum og misskilningi og lygavef sem hann og nágranni spinna upp, sem bara verður flóknari eftir því sem á sýninguna líður.  Ég hvet alla sem vilja hlæja úr sér líftóruna að fara á sýninguna því  hún er fáránlega góð.
Það er auður hvers bæjarfélags að eiga félag eins og Leikfélag Keflavíkur. Takk fyrir“.
- Kristinn Þór Jakobsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024