Atnorth
Atnorth

Mannlíf

Frábær árangur dansskólana úr Reykjanesbæ á HM
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 18. júlí 2025 kl. 06:42

Frábær árangur dansskólana úr Reykjanesbæ á HM

Tveir dansskólar úr Reykjanesbæ, Danskompaní og Ungleikhúsið, stóðu sig frábærlega á Heimsmeistaramótinu, Dance World Cup, í borginni Burgos á Spáni 3.-12. júlí. Báðir skólarnir sönkuðu að sér verðlaunum og vöktu mikla athygli á mótinu.

„Eftir þrotlausa vinnu og æfingar í allan vetur er uppskeran sú að sá árangur sem skólinn náði hefur vakið mikla athygli innan danssamfélagsins á heimsvísu. Enginn er eyland og augljóst að þessi magnaði árangur næst ekki nema með samstilltu átaki aðstandenda, þjálfara og annarra velunnara sem styrkt hafa liðið. Í hópnum var 51 þátttakandi og gekk ferðin mjög vel og frammistaðan hópnum og landinu til sóma,“ segir Elma Rún Kristinsdóttir, eigandi Ungleikhússins, sem keppti nú í fyrsta sinn á mótnu en Elma Rún var í eldlínunni með Danskompaníi síðustu ár en stofnaði sinn eigin skóla nýlega. Keppendur frá Ungleikhúsinu unnu níu heimsmeistaratitla, fern silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun, á mótinu núna.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Helga Á. Ólafsdóttir, eigandi DansKompanís, segir að ferðin hafi gengið eins og í sögu. „Alls kepptu 25 atriði frá skólanum, þar af komust heil 20 atriði í topp 10 í sínum flokki. Ekki nóg með það, heldur unnu 10 af þeim til verðlauna, þ.e.a.s. heimsmeistaratitlar, silfur- og bronsverðlaun. Með árangri mótsins í ár hefur DansKompaní á síðustu fjórum árum unnið til 22 heimsmeistaratitla, 9 silfurverðlauna og 8 bronsverðlauna á þessu virta móti. Það er árangur sem fáir dansskólar geta státað af á alþjóðavísu.

DansKompaní keppti einnig á báðum Grand Finals keppnum mótsins, þar sem aðeins stigahæstu siguratriðin fá að keppa. Það eitt og sér segir mikið um gæði atriðanna og frammistöðu skólans að sögn Helgu. Í Grand Finals eru það sterkustu dansarar heims sem stíga á svið og dansararnir frá DansKompaní stóðu jafnfætis þeim allra bestu,“ sagði Helga eftir komuna frá Spáni.

Ísland vann einnig heildarsigur í flokknum Song and Dance, þar sem samanlagður árangur skólanna sem keppa undir íslenska fánanum er metinn. DansKompaní lagði sitt af mörkum með glæsibrag og er afar stolt af því að hafa átt stóran þátt í þeim sigri.

Myndir að ofan eru af keppendum Ungleikhússins en hér að neðan frá Danskompaníi.