Frá Tálknafirði til Grindavíkur
-Fimm manna fjölskylda frá Tálknafirði nýsest að í Grindavík.
„Okkur langaði að prófa eitthvað nýtt og víkka aðeins sjóndeildarhringinn,“ segja Benedikt Páll Jónsson skipstjóri og Guðbjörg Arnardóttir en þau ásamt þremur sonum sínum fluttu frá Tálknafirði til Grindavíkur í sumar. Frá áramótum hefur íbúum Grindavíkur fjölgað um 30 talsins en íbúatala bæjarins var 2.463 íbúar þann 16. september sl.
Í júní í fyrra tók Benedikt við skipstjórn á dragnótarbátnum Sólfara RE-16 sem leggur upp í Grindavík. „Mér leist alltaf vel á Grindavík, ekki síst vegna þess að hér á ég skólabræður síðan úr Stýrimannaskólanum,“ segir Benedikt og bætir við. „Jón Gauti Dagbjartsson lagði hart að okkur að flytja hingað til Grindavíkur. Hann sagði að þetta væri besti staðurinn á Suðurnesjum og ég tók hann trúanlegan – og ég held að hann hafi haft rétt fyrir sér.“
Ekta sjómannsfrú
Ákvörðun þeirra hjóna bar brátt að og á meðan Benedikt sótti sjóinn í sunnlenskum sjó var sjómannsfrúin Guðbjörg á fullu fyrir vestan. „Hún er svo mikið hörkutól. Hún pakkaði öllu niður, málaði húsið að utan og innan og kom síðan með draslið. Alveg ótrúleg kona. Svona eru þær þessar ekta sjómannsfrúr,“ segir Benedikt og lítur á Guðbjörgu.
Langar útiverur
„Kallinn var að koma heim aðra hvora helgi og var þá á heimilinu í tvo daga. Ég er reyndar vön þessu því pabbi minn var skipstjóri á togara á Tálknafirði,“ segir Guðbjörg og hún telur að það hafi auðveldað henni að vera gift sjómanni. „Auðvitað geta þetta orðið langar útiverur hjá Benna, en þetta varð allt mun auðveldara eftir að við fluttum hingað,“ segir hún en viðbrigðin voru töluverð. „Þegar við keyptum okkur hús á Tálknafirði flutti ég 10 metra frá æskuheimilinu þannig að breytingin er töluverð að vera komin til Grindavíkur.“
Góðir nágrannar
Þau segjast vera ánægð með viðtökurnar sem þau hafa fengið hjá Grindvíkingum. „Nágrannarnir hafa verið að koma til okkar og bjóða okkur velkomin í hverfið og það hefur verið frábært hvernig okkur hefur verið tekið. Það er líka svo mikil jákvæðni í gangi hérna hjá fólkinu. Allir að hrósa skólanum og leikskólanum og það er allt til alls hér á svæðinu. Fólk finnur að það er mikil uppbygging í plássinu og talar einmitt um það hve mikið af fólki er að flytja hingað,“ segja þau og bæta við. „Okkur fannst bærinn reyndar vera mun stærri en hann er fyrst þegar við komum hingað en svo vandist þetta. Breytingin er heldur ekkert svo rosaleg því við erum að fara úr litlu sjávarplássi í stórt sjávarpláss.“
Íþróttirnar skipta máli
Þau segja að strákarnir hafi náð að koma sér vel inn í samfélagið og þeir séu ánægðir. „Við ákváðum strax að koma þeim í íþróttir og það hefur virkað rosalega vel. Þeir kynntust krökkum áður en þeir byrjuðu í skólanum og það munar rosalega um það.
Auðvitað sakna þeir Tálknafjarðar og vinanna þar, en þeir taka þessu ótrúlega vel og finnst þetta spennandi,“ segja þau og þegar strákarnir eru spurðir með hvaða fótboltaliði þeir haldi svara þeir allir í kór: Grindavík.
En hvernig líst skipstjóranum á Grindavík og atvinnumálin í plássinu? „Það er allt í þrusu góðum málum hér. Það er mikill uppgangur á svæðinu og höfnin iðar af lífi, enda er allt fullt af bátum hér. Það er verið að gera hlutina af alvöru hérna – stórhuga fyrirtæki sem eru að ná árangri. Kallarnir á höfninni og markaðnum eru líka helvíti fínir og þetta allt skiptir máli,“ segir Benedikt.
Myndir: Fjölskyldan að vestan í eldhúsinu: Guðbjörg, Hilmar Örn 10 ára, Röskvi 16 vikna, Benedikt Guðjón 7 ára, Guðlaugur Skúli 5 ára og Benedikt. Bræðurnir halda allir með Grindavík í fótboltanum en í enska boltanum halda yngri bræðurnir með Manchester United en elsti bróðirinn með Liverpool. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.