Frá Síberíu til Suðurnesja
- Kemur frá kaldasta byggða svæði jarðar
Maria Shishigina-Pálsson er frá borginni Jakutsk í Jakútíu í Norðaustur Síberíu en býr í Reykjanesbæ. Hún hefur búið þar í fimm ár og segir lífið á Suðurnesjum að sumu leiti minna á Sovéttímann sem hún stundum saknar. Jakutsk er kaldasta borg í heimi og getur frostið þar farið niður í 60 gráður. Maria segir þó ekki mikið erfiðara að lifa af veturinn þar en á Íslandi, enda er alltaf blankalogn í frostinu. „Ég hef fengið gesti frá Jakútsk í október og þau skilja ekkert í því hversu kalt er hérna á Íslandi,“ segir hún og bætir við að rokið geri útiveru erfiða á Íslandi. „Fyrst þegar ég kom skyldi ég ekki íslensku og fylgdist því lítið með veðurfréttum. Einn daginn fór ég út með kerru að sækja börnin mín á leikskólann og tókst næstum því á loft. Ég var eiginlega eins og Mary Poppins og kerran eins og regnhlíf.“
Amma ánægð með íslenska víkinginn
Eiginmaður Mariu er Arnar Pálsson flugvirki og kynntust þau þegar hann vann um tíma í Jakútíu. Þau búa nú við Birkiteig í Reykjanesbæ ásamt þremur börnum, Max 14 ára, Arthur 5 ára og Pálínu þriggja og hálfs árs. Maria hafði ekki ætlað sér að flytja frá Jakútíu enda kunni hún vel við lífið þar. „Svo þegar ég kynntist manninum mínum fannst mér eins og ég hefði þekkt hann alla tíð. Það var því ekki mikið mál að telja mig á að flytja til Íslands,“ segir hún. Fjölskylda Mariu tók tengdasyninum fagnandi og segir Maria ömmu sína hafa verið sérstaklega ánægða með að fá norrænan víking í fjölskylduna. Pabbi Mariu hefur komið nokkrum sinnum til Íslands og er vinur listakonunnar Kjuregej Alexöndru Argunovu sem lengi hefur verið búsett hér á landi.
Þegar Maria og Arnar giftu sig buðu þau 130 manns í veisluna. Maria segist hafa viljað bjóða fleirum en að því miður hafi ekki verið pláss. Þau fara til Jakútsk á hverju sumri og halda þá upp á brúðkaupsafmælið með heljarinnar veislu og bjóða þeim sem ekki var boðið í brúðkaupið. Það fer því fækkandi á þeim lista.
Fann frið á Íslandi
Maria kenndi ensku í háskóla í Jakutsk, á þar marga vini og stóra, samheldna fjölskyldu og lifði hröðu lífi. Hún segir það því hafa verið mikil viðbrigði til að byrja með að flytja til Íslands, fara í fæðingarorlof og þekkja fáa. „Þá fannst mér heldur rólegt hérna og lítið um að vera. Svo með tímanum lærði ég að meta kyrrðina.“ Maria hefur valið sér að vera heimavinnandi og segir gott að geta alltaf verið til staðar fyrir börnin sín. „Elsta soninn Max eignaðist ég áður en ég kynntist Arnari. Ég var ein með hann í Jakutsk og vann mikið. Hann er mjög ánægður með þessa breytingu og að ég sé alltaf heima. Ég hef lært svo margt á þessum fimm árum á Íslandi og finnst móðurhlutverkið ganga mun betur núna en áður þegar vinnan gekk fyrir. Foreldrar mínir voru kennarar og unnu mikið og ég man að sem barn óskaði ég þess oft að þau hefðu meiri tíma fyrir mig.“
Maria og Arnar við ánna Lenu. Þarna eru þau í þorpinu Pokrovsk þar sem foreldrar hennar búa.
Saknar Sovéttímans
Uppvaxtarár Mariu lituðust af Sovéttímanum og þvert á það sem eflaust margir myndu halda þá saknar hún hans. „Þá voru allir jafnir og fólk stóð saman. Eftir að Sovétríkin liðu undir lok fór að bera á stéttaskiptingu. Samfélagið var eitthvað svo saklaust á Sovéttímanum. Við þurftum ekki að læsa útidyrahurðinni því það voru engar líkur á að neinn myndi brjótast inn. Að sama skapi þurftum við aldrei að læsa hjólunum okkar. Lífið hér í Reykjanesbæ minnir mig svolítið á Sovéttímann að þessu leiti því það er svo friðsælt hér.“ Maria segir að strax á 10. áratugnum eftir Sovétríkin liðu undir lok hafi glæpir í Jakútíu aukist. Aðspurð um skort á neysluvörum á Sovéttímanum segir hún hann ekki hafa komið að sök. „Við höfðum hrossa- og nautakjöt og mjólk. Fólk var duglegt að bjarga sér og landbúnaðurinn blómstraði. Allt var gert frá grunni með hráefni frá Jakútíu og fólk hafði mikinn metnað og var stolt af vinnunni sinni. Þetta er svolítið breytt í dag þegar alls konar duft er innflutt og notað við gerð matvæla.“
Töpuðu tungumálinu
Það var þó ekki allt gott við Sovéttímann í Jakútíu því að rússneskan tók yfir tungumál Jakútíufólks sem alltaf hafði átt sitt eigið sem sprottið er úr tyrknesku. Í dag tala flestir Jakútar saman á rússnesku og aðeins er kennt á jakútísku í tveimur grunnskólum í landinu. Maria segir þetta mjög miður enda er það ekkert smáræði að tapa heilu tungumáli. „Amma mín lagði mikla áherslu á að ég lærði jakútísku í æsku og ég skyldi ekki alveg af hverju. Eftir að ég flutti til Íslands og sé hve vel íslenskan hefur varðveist þá skil ég ömmu betur. Við erum Jakútar en eigum ekki okkar eigið tungumál lengur og það getur verið flókið.“
Maria talar rússnesku við börnin sín og leggur áherslu á að þau þekki rætur sínar. Hún hefur unnið að því að efla samskiptin á milli Íslands og Jakútíu og hefur haldið nokkrar kynningar á þarlendri menningu hér á landi. Fyrr í vetur hélt hún fjölsótta kynningu hjá Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum ásamt móður sinni og frænkum sem þá voru í heimsókn. Þá hefur Maria tekið þátt í verkefnum sem miða að því að styrkja sambandið á milli Jakútsk og Íslands, meðal annars með skipuleggjendum Víkingahátíðarinnar í Hafnarfirði.
Ekki er hægt að ljúka viðtalinu án þess að spyrja Mariu hvernig fólk fari að því að lifa af á kaldasta stað á jarðríki í 60 gráðu frosti. „Fólk bara klæðir sig vel, í loðfeldi eða Kanada Goose úlpu. Þær eru mjög vinsælar núna í Jakútíu.“ Þá segir Maria vera hlýtt inni við enda séu húsin hituð upp með vatni sem hitað er með rafmagni. Í gamla daga voru húsin kynt með kúm á svipaðan hátt og gert var með sauðfé í íslenskum torfbæjum. Svo var auðvitað nóg af eldivið í Síberíu enda mikið skóglendi þar. Maria segir harðneskjuna í Síberíu og á Íslandi eiga vel við sig svo það sé ekki yfir neinu að kvarta þó svo að kalt sé yfir veturinn. „Kuldinn gerir mann sterkan og hjartað heitt,“ segir hún.
Hljóðfærið vargan nýtur mikilla vinsælda í Jakútíu. Maria leikur nær daglega á
sitt.
Maria og Arnar á brúðkaupsdaginn.
Maria og Arnar ásamt Jóni Gnarr, þáverandi borgarstjóra á listasýningu á Kjarvalsstöðum.
Maria kann vel að meta kyrrðina á Suðurnesjum.
Fallegir vettlingar frá Síberíu. Vinkona Mariu saumaði þá í höndum.