„Frá barni til barns“
Píanó-, harmoniku- og hljómborðsnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, ásamt kennurum sínum, efndu nú á vordögum til tónlistarverkefnis sem ber heitið „Frá barni til barns“, og hleyptu því af stokkunum laugardaginn 14. apríl sl. Tónlistarverkefnið „Frá barni til barns” er söfnun til styrktar langveikum börnum í Reykjanesbæ.
Upphafsdaginn, þann 14. apríl, var efnt til sérstakrar dagskrár í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þar sem haldnir voru sex tónleikar í tónleikasalnum Bergi, á tímabilinu frá kl. 11-14. Auk þess var efnt til listmarkaðar þar sem listamenn á sviði myndlistar, ritlistar, tónlistar, ljósmyndunar og ýmis konar handverks, gáfu verk sín. Þar að auki var starfrækt kaffihús við listmarkaðinn og nýttu nokkrir píanó og harmonikunemendur tækifærið og léku fyrir gesti kaffihússins.
Dagskráin heppnaðist í alla staði mjög vel og það var mikill fjöldi fólks sem lagði leið sína í Tónlistarskólann til að njóta tónlistarflutnings nemenda og góðra veitinga og all nokkuð af listaverkum seldust. Allur ágóði af dagskrá dagsins rennur til málefnisins.
Starfsmannafélag Brunavarna Suðurnesja gaf þennan dag, 100.000 kr. til styrktar málefninu. Tónlistarskólinn og aðstandendur „Frá barni til barns” þakka innilega þann stórhug.
Alls söfnuðust þann 14. apríl, fyrsta dag verkefnisins, 692.000 kr.
Verkefnið „Frá barni til barns“ stendur til og með 14. maí nk. og er með styrktarreikning sem verður opinn til loka þess dags.
Númer reikningsins er: 0142-15-010366 Kt. 300658-4829.