Fótbolti og óvænt vinna í nýju apóteki
Brynjar Atli Bragason eyddi miklum tíma í fótboltaæfingar og leiki með Breiðablik í sumar. Hann útskrifaðist einnig með BS gráðu í lyfjafræði í sumar og fannst frábært að geta haldið upp á það án takmarkana. Honum finnst Ljósanótt vera skemmtileg en hann ætlar að sækja listasýningar og hlakkar til að sjá flugeldasýninguna.
Hvernig varðir þú fyrsta sumarfríinu án takmarkana?
„Ég útskrifaðist með BS gráðu í lyfjafræði og það var frábært að geta haldið upp á það almennilega án takmarkana. Ég spila fótbolta með Breiðablik svo sumarið fór mikið í æfingar og leiki. Síðan reyndi ég að njóta með með fjölskyldu og vinum þess á milli.“
Hvað stóð upp úr?
„Það sem stóð upp úr voru Evrópuferðirnar með fótboltanum. Við fórum til Andorra, Svartfjallalands og Tyrklands. Þetta eru allt lönd sem maður myndi vanalega ekki heimsækja sjálfur, það var mjög gaman að taka þátt í þessu og upplifa mismunandi menningu.“
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„Það kom mjög skemmtilega á óvart sú skyndiákvörðun að taka þátt í að opna nýtt apótek í Reykjanesbæ. Sigríður Pálína, lyfsali og eigandi Reykjanesapóteks, bauð mér, og hópi lyfjafræðinga og nema, að stofna nýtt apótek sem mun bera nafnið Reykjanesapótek Fitjum. Við stefnum á að opna í september og með þessu viljum við eftir bestu getu bæta heilbrigðisþjónustu í bænum.“
Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
„Já, fjölskylda kærustu minnar á jörð á Flúðum. Þegar maður þarf á afslöppun og núllstillingu að halda er alveg frábært að kíkja þangað.“
Hvað ætlar þú að gera í vetur?
„Ég er byrjaður í mastersnámi í lyfjafræði og mun veturinn líklega snúast mikið um námið.“
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
„Ljósanótt er alltaf skemmtileg og tengir bæjarbúa saman. Hátíðin er alltaf vel sett upp og fjöldinn allur af viðburðum sem hægt er að sækja.“
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
„Ég mun líklega kíkja á einhverjar listasýningar en hlakka mest til að sjá flugeldasýninguna.“
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
„Það er orðin hefð hjá mér og minni fjölskyldu að kíkja til ömmu og fá okkur rjómapönnukökur með kaffinu. Það er eitthvað sem sem stendur alltaf upp úr.“