Föstudagurinn var fjörugur í Grindavík
Fjörugur föstudagur var haldinn í sjöunda sinn í Grindavík þann 1. desember sl. Það var líf og fjör á Hafnargötunni og boðið var upp á alls kyns skemmtun og tilboð.
Slökkvilið Grindavíkur bauð gestum og gangandi að fá að slökkva eld og sýndi muninn á því hvað vatn gerir þegar þú reynir að slökkva eld sem kviknar út frá gasi og hvað duft gerir. Sjúkraflutningamenn mældu blóðsykur hjá þeim sem vildu, jólasveinar gáfu mandarínur úr poka og hin árlegi fish and chips viðburður var í boði Þorbjarnar. Trésmíðaverkstæði Grindarinnar bauð upp á jólaskraut og fengu þeir sem vildu að fylgjast með ferlinu sem fer fram þegar skrautið er fræst úr við og var einnig í boði að bora göt til að geta hengt jólaskrautið upp. Veðrið lék við gesti og voru verslunareigendur glaðir með kvöldið.
Hér að neðan má sjá myndasafn frá fjörugum föstudegi, Rannveig Jónína, blaðamaður Víkurfrétta tók myndir.