Forvitnileg sýning í Saltfisksetrinu
Guðmundur R. Lúðvíksson, myndlistamaður úr Reykjanesbæ , opnaði myndlistarsýningu í listasal Saltfisksetursins í Grindavík í dag. Á sýningunni eru afar forvitnileg þrívíddarverk þar sem listamaðurinn sækir innblástur í sjósókn og skipasmíðar fyrri tíðar. Guðmundur leikur sér bæði með formin og lýsinguna sem gefur verkunum mikla og skemmtilega dýpt. Sýningin ber titilinn Memorialist .
Samhliða opnun sýningarinnar er hafin sala á nýrri 200 síðna bók með verkum Guðmundar frá 1991 til 2006 og var hún kynnt á opnuninni.
Guðmundur er myndlistamenntaður frá Myndlista og handíðaskóla Íslands og með framhaldsmenntun frá íHollandi og Frankfurt í Þýskalandi.
Hann hefur haldið fjölda sýninga og sýnt í flestum söfnum og galleríum hér heima.
Fyrir skemmstu hlaut Guðmundur Palm Award verðlaunin í Leipzig í Þýskalandi fyrir málverk sem hann sýndi þar í október og desember 2007.
Sýningin í Grindavík verður opin til 2. mars á opnunartíma setursins.
Mynd: Frá opnun sýningarinnar í dag. VF-mynd: elg.