Forvitinn vísindastrákur í skák, tónlist og sundi
Már Gunnarsson er blindur dugnaðarforkur sem syndir, semur tónlist og spyr um allt milli himins og jarðar.
Már Gunnarsson er efnilegur 13 ára strákur sem býr með fjölskyldu sinni í Njarðvík. Hann á sér margvísleg áhugamál en sjálfur segist hann hafa áhuga á öllu mögulegu.Tónlist og sundíþróttin skipa sérstakan sess hjá Má en hann þykir ansi efnilegur á báðum sviðum og er honum jafnframt spáð nokkrum frama í hvoru því sem hann kýs að leggja fyrir sig. Már fæddist með sjúkdóm í augnbotnum sem ber heitið Leber congenital amaurosis eða (LCA). Sjúkdómurinn er ólæknandi og arfgengur í karllegg. Frá fimm ára aldri hefur sjón Más hrakað mjög en sjón hans er nú talin vera um 1% af því sem telst eðlileg sjón. Hann lætur það ekki aftra sér en Már stundar sund af kappi, þeysist um á kappastursbílum, teflir og semur popptónlist.
Enga þjónustu að fá á Íslandi fyrir blinda
Fyrir um 7 árum síðan flutti Már með fjölskyldu sinni til Lúxemborgar þar sem enga þjónustu var að fá fyrir ungan blindan dreng á Íslandi. Hér á landi var aðeins starfandi einn kennari í hlutastarfi til að kenna blindum börnum. Már sat að mestu aðgerðarlaus í skólastofunni frá morgni og fram eftir degi. Foreldrar hans hófu því að leita að löndum hér í kring sem myndu bjóða þjónustu við hæfi. Í Lúxemborg var Má lofað góðri þjónustu og þar fengi hann að læra punktaletur og fengi aðra þjónustu við hæfi. Már getur gert grein fyrir hlutum í kringum sig en hann segir að í raun sé erfitt að lýsa því hvernig sjón hans virki en hann nær að fást við flesta daglega hluti án þess að fara sér að voða. Þó komi það fyrir að hann reki sig á fari hann of geyst.
Gunnar Már Másson faðir Más segir að Már unni sér vel þar sem hann dvelur hverju sinni og að hann geri allt mjög vel sem hann tekur sér fyrir hendur. „Hann hefur skýra framtíðarsýn og hann leggur hart að sér til þess að ná markmiðum sínum og við erum afskaplega stolt af honum,“ segir Gunnar en hann og listakonan Lína Rut Wilberg eru foreldrar Más.
Gunnar Már starfar sem flugmaður hjá Icelandair og hann fékk sig fluttan til í starfi og fékk starf við fraktflutninga hjá fyrirtækinu í Belgíu, sem er næsta land við Lúxemborg. Með trygga vinnu tók fjölskyldan sig upp og settist að erlendis í sex ár. Þjónustan sem var í boði fyrir Má var mun betri en fjölskyldan hafði vanist á Íslandi. Það er ekki nema rúmt ár síðan fjölskyldan fluttist aftur til Reykjanesbæjar en að þeirra mati var Már tilbúinn að fara í skóla hér og þjónustan hafði auk þess batnað til muna frá því sem áður var. Munurinn var í raun eins og svart og hvítt. Már segist hafa lært margt í Lúxemborg. „Þetta var verkefni sem ég þurfti að klára og ég lærði margt á þeim tíma sem við bjuggum í Lúxemborg. Sama hversu gott land Lúxemborg er þá mun Ísland alltaf vera heimalandið mitt,“ segir Már sem lærði að lesa blindraletur ytra en hann lærði einnig lúxemborgísku, þýsku og frönsku. Auk þess kviknaði áhuginn á tónlistinni í Lúxemborg.
Hlustar eiginlega ekki á tónlist - nema Quarashi
Bjargey Þrúður Ingólfsdóttir er píanókennari Más. Hún segir Má eiga framtíðina fyrir sér í tónlistinni, kjósi hann að feta þá braut. Sjálfur segist Már eiginlega ekki hlusta mikið á tónlist. Það komi þó stundum fyrir að hann hlusti á hljómsveitina Quarashi, og að sjálfsögðu Eurovision. „Ég gef þó flestum tónlistarmönnum séns en þeir eru bara misgóðir , fyrir mitt leyti eru Quarashi bara mjög góðir og ég vona að þeir komi saman á ný.“
Már byrjaði að spila á píanó þegar hann var búsettur í Lúxemborg, þá átta ára gamall. Már sem er virkur lagahöfundur, er á því að það sé ekki hægt að kenna fólki að semja lag. Það sé hæfileiki sem sé einfaldlega til staðar hjá fólki eða ekki. Hann dundar sér sjálfur við píanóið löngum stundum á heimili fjölskyldunnar en þar hefur hann samið nokkurn fjölda popplaga. „Það er í raun ekki hægt að kenna þér að fá hugmynd,“ útskýrir Már fyrir blaðamanni. Már segist vel geta hugsað sér að vera í hljómsveit og þá langar hann að halda áfram að semja tónllist af ýmsum toga.
Ætlar að synda og semja tónlist í framtíðinni
Þegar talið berst að því hvort hann ætli sér að einbeita sér að tónlistinni eða sundinu í framtíðinni þá virðist það ekki vefjast mikið fyrir Má. „Ég hugsa að ég verði bara í báðu. Það er svo rosalega skemmtilegt í sundi, að ég get ekki hættiþví. Það er líka svo rosalega gaman í tónlistinni, að ég get ekki hætt því heldur,“ segir Már sem hefur líka mikinn metnað fyrir því að mennta sig, en stefnan er sett á það að læra lögfræði. Már hefur mjög gaman af því að lesa hljóðbækur og hefur hann lesið yfir 400 slíkar. Þar eru Harry Potter bækurnar í sérstöku uppáhaldi.
Hugsar bara um að fara hraðar og hraðar
Íslendingar eru að mati Más hálfgerð sundþjóð. Við eigum jú allar þessar góðu sundlaugar og búum auk þess á eyju og stundum sjómennsku. Hann segist fá mikið út úr sundinu en hann hugsar sífellt um það að komast hraðar og hraðar. Stuttu hröðu sundin eru hans sterkustu greinar í sundinu. Már æfir fimm sinnum í viku og þess á milli eru píanótímar og ýmislegt annað sem vekur áhuga Más. Að eigin sögn hefur hann nánast áhuga á öllu mögulegu. „Ég er t.d. algjör flugvélaaðdáandi,“ segir Már en hann á ekki langt að sækja þann áhuga. Gunnar faðir hans er flugmaður, afi hans og nafni vann einnig fyrir Icelandair og segja mætti að í föðurætt séu flestir tengdir inn í flugið á einhvern hátt.
Már er mikill vísindastrákur eins og hann orðar það en náttúrufræði er eftirlætis fagið hans. Hann er ásamt Helenu eðlisfræðikennara sínum að hanna litla svifflugvél þessa dagana sem hægt væri að ná á flug með því að kasta henni á loft. Hvorki meira né minna. Már er að eigin sögn rosalega forvitinn. „Verða foreldarar þínir pirraðir á spurningum þínum?“ spyr blaðamaður. „Þú verður að spyrja pabba að því,“ segir Már og glottir.
Ekki hægt að hindra stríðni
Í skólanum gengur Má vel og hann segir kennara skólans vera góða. Krakkarnir eru fínir og hann hefur eignast vini í skólanum. Það hefur þó komið fyrir að honum hafi verið strítt. „Það hefur alltaf lagast fljótlega. Stríðni er í öllum skólum og það er ekki hægt að hindra það. Ég svara bara oftast fyrir mig, sá sem stríðir þarf oftast bara sjálfur að láta í lægri pokann,“ segir Már en hann telur að þeir sem stríði glími oftast við einhver vandamál sjálfir. Gunnar faðir Más segir hann vera sterkari á svellinu félagslega á Íslandi en í Lúxemborg. „Hans styrkur liggur í því að hann er glaðbeittur, skemmtilegur og fróðleiksfús. Oft væri betra að hafa google fyrir framan sig svo maður líti ekki kjánalega út þegar maður er að svara spurningum hans. Hann á mjög gott með það að læra og er mjög skýr drengurinn,“ segir Gunnar um son sinn.
„Við höfum þurft að takast á við eineltismál í Lúxemborg sem voru sérstaklega erfið fyrir Má. Það var ekki alltaf dans á rósum í Lúxemborg og ein af ástæðunum fyrir heimför okkar var að Má leið ekki allt of vel vegna þessara mála.“ Gunnar segir að smávægileg mál hafi komið upp hérlendis en sem betur fer hafi þau verið leyst í sátt. „Sem betur fer sér hann ljósið og lítur björtum augum á framtíðina,“ segir Gunnar Már faðir hins efnilega Más að lokum.
Eyþór Sæmundsson blaðamaður Víkurfrétta eyddi degi með Má fyrir skömmu en myndband af spjalli þeirra má sjá á vef Víkurfrétta og í þættinum Suðurnesjamagasín sem sýndir eru á ÍNN og kapalrás Kapalvæðingar. Þar spilar Már m.a. frumsamda tónlist, teflir við blaðamann og skellir sér á sundæfingu.