Forstöðumaður MSS útskrifast úr leiðsögunámi skólans

-Úti í náttúrunni líður Guðjónínu Sæmundsdóttur best

Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, útskrifaðist á dögunum úr leiðsögunámi skólans en í því hefur hún verið síðastliðið ár. Guðjónína er ferðamálafræðingur frá Högskolen i Lillehammer, náms- og starfsráðgjafi frá Háskóla Íslands og hún fór einnig í eins árs tölfræðinám við Universitetet i Osló. Nú er hún orðin leiðsögumaður með sérþekkingu á Reykjanesinu. Guðjónína lýsir sjálfri sér sem mikilli útivistarmanneskju sem hefur gaman af göngu. „Mér finnst æðislegt að vera úti í náttúrunni og labba upp á fjöll. Þar líður mér best.“

 

Hún telur að námið muni nýtast vel í starfi sínu hjá MSS. „Þó maður sé ekkert endilega að hugsa um að starfa við þetta, þá lærir maður svo mikið af praktískum hlutum sem gaman er að segja frá. Hér í MSS sinnum við mörgum erlendum verkefnum og fáum hópa til okkar. Ég hef verið að sjá um þessa hópa og segja þeim ýmislegt, en núna veit ég miklu meira um þetta og get svarað fleiri spurningum,“ segir Guðjónína.

 

Í síðustu viku fór starfsfólk MSS til Helsinki í Finnlandi vegna Evrópuverkefnis en hópurinn endaði á að skrá sig í tíu kílómetra maraþon. „Hlaupið var æðislegt og sólin skein. Það voru þó ekki allir starfsmenn sem hlupu en þeir voru þá stuðningur fyrir okkur hin, hvöttu okkur af stað og tóku svo á móti okkur í lokin. Þetta var alveg frábært hópefli og styrkti hópinn enn betur.“

 

Guðjónína ásamt félögunum sínum eftir maraþonið í Finnlandi.

 

Námið, sem er 23 einingar, er kennt nokkur kvöld í viku, á einu ári og gert er ráð fyrir því að fólk geti sinnt því með vinnu. Guðjónína lýsir því sem lærdómsríku og skemmtilegu. Síðast útskrifaðist hópur leiðsögumanna frá MSS árið 2005 en það var ekki fyrr en í fyrra sem tilsettur fjöldi nemenda náðist aftur. „Maður vonast til að komast af stað með þetta aftur því þetta kveikir svo mikið áhugann á Reykjanesinu. Ungt fólk á mikið erindi í þetta því við viljum líka fá unga leiðsögumenn, ekki bara eldra fólk. Þú þarft að vera orðinn 21 árs til þess að fá inngöngu, vera með stúdentspróf eða eitthvað sambærilegt.“ Með henni í náminu voru meðal annars bílstjórar, kennarar og fólk sem tekur á móti erlendu kvikmyndafólki til landsins. „Þetta er bara fólk sem er að gera ýmislegt.“

 


Guðjónína ásamt samnemendum sínum í leiðsögunáminu.
 

Hún segir aukningu í ferðaþjónustunni á Íslandi kalla á fleiri leiðsögumenn. „Við höfum svo miklu meira að bjóða hér á Reykjanesinu heldur en margir gera sér grein fyrir. Reykjanesið er allt ótrúlega flott. Maður keyrir um og sér víðáttuna, jafnvel þar sem svæðið er flatt. Það er bara svo sérstakt að sjá svona rosalega langt.“

 

solborg@vf.is