Forskólatónleikar í Reykjanesbæ
Fimmtudaginn 16. mars n.k. stendur Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tvennum Stór-tónleikum í Stapa, Hljómahöll. Á tónleikunum koma fram nemendur í Forskóla 2, sem er allur 2. bekkur grunnskólanna (7 ára börn) og með þeim leika Lúðrasveit TR og Rokkhljómsveit.
Fyrri tónleikarnir verða kl.17. Á þeim koma fram forskólanemendur úr Háaleitisskóla, Heiðarskóla og Stapaskóla.
Seinni tónleikarnir verða kl.18. Á þeim koma fram forskólanemendur úr Akurskóla, Holtaskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla. Tónleikarnir taka um 30 mínútur hvor.
Forskóladeildin hefur um langt árabil staðið fyrir Stór-tónleikum einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni og oft einnig rokkhljómsveit eins og að þessu sinni, en hljómsveitirnar eru í hlutverki „undirleikara“ fyrir forskólanemendurna.
Fyrstu árin fóru tónleikarnir fram í grunnskólunum og svo lokatónleikar haldnir í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur, en eftir að Hljómahöll var byggð og Tónlistarskólinn þar með kominn með nýtt heimili, var ákveðið að færa tónleikana í hinn glæsilega tónleikasal, Stapa.
Mikil ánægja hefur verið með það fyrirkomulag enda öll umgjörð tónleikanna hin glæsilegasta, stórt svið og flott sviðslýsing.
Á tónleikunum koma fram alls um 300 börn og ungmenni, þar af um 260 forskólanemendur, sem flytja fjölbreytta og stórskemmtilega efnisskrá, bæði sungna og leikna á hin ýmsu hljóðfæri.
Allir eru hjartanlega velkomnir.