Forskólatónleikar í grunnskólum bæjarins
Dagana 27. og 28. febrúar nk. mun Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar ásamt Lúðrasveit C og Strengjasveit halda tónleika fyrir nemendur í öllum grunnskólum Reykjanesbæjar.
Þetta er níunda árið í röð sem Forskóladeild og Lúðrasveitin standa saman að grunnskólatónleikum og að þessu sinni bætist Strengjasveit skólans í hópinn. Umfang verkefnisins hefur vaxið ár frá ári og hefur sú hefð myndast að því ljúki með stór-tónleikum ætluðum almenningi og hafa börnin ávallt spilað og sungið fyrir troðfullu húsi og algerlega slegið í gegn.
Alls verða haldnir 6 skólatónleikar á þessum tveimur dögum og eins og hefðin býður, mun tónleikaröðinni ljúka með Stór-tónleikum í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur þriðjudaginn 28. febrúar. Tónleikarnir hefjast kl. 19.30. Þar koma fram nemendur Forskóla 2 í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, en hann skipa allir nemendur í 2. bekk grunnskólanna í Reykjanesbæ, alls um 210 börn, ásamt Lúðrasveit skólans, C-sveit, og Strengjasveit skólans. Á þessum tónleikum koma því fram um 265 börn og unglingar. Allir eru hjartanlega velkomnir og aðgangur er ókeypis.