Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Forsetinn fékk góðar móttökur í Vogum
Margir nemendur létu taka myndir af sér með forseta Íslands.
Laugardagur 4. febrúar 2017 kl. 06:00

Forsetinn fékk góðar móttökur í Vogum

- Hélt erindi á skólaþingi Stóru-Vogaskóla

Skólaþing Stóru-Vogaskóla var haldið í gær og heimsótti forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, skólann af því tilefni. Viðfangsefni skólaþingsins var metnaður og hvernig hægt er að efla metnað nemenda.

Í ávarpi sínu til nemenda í 6. til 10. bekk sló Guðni á létta strengi og sagði frá því að þegar hann var ungur hafi hann verið einstaklega feiminn. Eitt sinn ætlaði hann að gera tilraun til að minnka feimnina og mætti á fund hjá málfundafélagi Menntaskólans í Reykjavík og tók strætó frá Garðabæ í miðborgina. Hann tvísteig í nokkurn tíma fyrir utan húsið en þorði ekki inn. „Ég hugsaði með mér að það væru aðrir sem gætu haldið miklu betri ræður en ég svo ég snéri við og tók strætó til baka, alla leið til Hafnarfjarðar svo að mamma myndi ekki átta sig á því að ég væri á leiðinni heim,“ sagði hann. Guðni var vonsvikinn með sjálfan sig þennan dag en fékk síðar sæti í ræðuliði bekkjarins og átti sæti í liði MR í Gettu betur.

Public deli
Public deli

Í máli Guðna kom fram að metnaður snúist um að gera hlutina vel, bæta sig um umfram allt vera góður við aðra. Að ávarpinu loknu bauðst nemendum að bera fram spurningar til forsetans og fóru þá margar hendur á loft og spurðu nemendur hann um heima og geima. Ein spurningin var um það hvert væri uppáhalds buff forsetans. Hann svaraði því til að það væri buffið frá Alzheimers-félaginu enda hafi það vakið athygli á góðum málstað.

Eftir að forsetinn hafði kvatt og fjöldi nemenda tekið af sér myndir með honum var nemendum 6. til 10. bekkjar skipt í hópa þar sem þau unnu með spurningar sem stjórn nemendafélagsins hafði undirbúið. Stefnan er að vinna úr þeim metnaðarfulla punkta sem verða kynntir fyrir nemendum næstu vikur. 

Fanney Björg Magnúsdóttir, nemandi í 10. bekk, lék á flygil á skólaþinginu. 

Skólasöngur Stóru-Vogaskóla var sunginn á skólaþinginu.