Forseti Grikklands heimsótti Suðurnes
Karolos Papoulias, forseti Grikklands heiðraði Suðurnes með nærveru sinni í dag, en yfirreið hans um svæðið er hluti af opinberri heimsókn hans hingað til lands.
Eftir blaðamannafund með forseta Íslands og hádegisverð í boði Vilhjálms Vilhjálmssonar, borgarstjóra, hélt Papoulis, ásamt eiginkonu sinni May, íslensku forsetahjónunum og fjölmennu fylgdarliði til Grindavíkur þar sem litið var inn í fiskverkun Vísis. Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri, fór með hersinguna um húsið og kynnti fyrir þeim vinnslu saltfisks.
Strax á eftir var móttaka í Saltfisksetrinu þar sem Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri, tók á móti gestum og Óskar Sævarsson, forstöðumaður setursins sýndi forsetanum og hans fólki um safnið.
Næst á dagskrá var kynning á starfsemi Hitaveitu Suðurnesja, en Albert Albertssn, aðstoðarframkvæmdastjóri HS, leiddi hópinn í allan sannleika um raforkuvinnslu fyrirtækisins og einnig var keyrt upp að kraumandi borholu í hrauninu í Svartsengi.
Síðasti áningarstaður hópsins á Suðurnesjum var í Bláa Lóninu þar sem Magnea Guðmundsdóttir kynnti starfsemi lónsins og framtíðaráætlanir.
Með því lauk ferð hópsins um Suðurnes en grísku forsetahjónin snæddu kvöldverð á Bessastöðum í boði forsetahjónanna. Á morgun er enn þétt dagskrá framundan hjá tignargestunum en þau fara af landi brott á laugardagsmorgun.
VF-mynd/Þorgils: Grísku foretahjónin ásamt gestgjöfum sínum, Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff, á leið frá Bláa Lóninu.