Forréttindi að hafa fæðst á Íslandi
Aníta Marcher Pálsdóttir fór í ævintýraferð sem breytti lífi hennar
Hin 22 ára Aníta Marcher Pálsdóttir ákvað að söðla heldur betur um á þessu ári. Hún ákvað að stíga stórt skref út fyrir þægindahringinn sinn þegar hún hélt í ævintýraferð sem átti eftir að breyta lífi hennar. Njarðvíkingurinn Aníta ferðaðist um Afríku, Ástralíu og Asíu þar sem hún vann sjálfboðastörf og lenti í ótal hremmingum og mögnuðum upplifunum. Aníta stundar nám í hjúkrunarfræði og í framtíðinni stefnir hún á að taka þátt í heilbrigðistengdum verkefnum víðsvegar um heiminn. Hún segir forréttindi að búa á Íslandi en á ferðalögum sínum hefur hún öðlast aðra sýn á lífið.
Hvað var það við Afríku sem heillaði þig svo þú ákvaðst að fara þangað?
„Áfangastaðurinn sjálfur var ekki það sem dró mig útí heim, heldur var það upplifunin sem ég var að sækjast eftir. Ég hafði samband við ferðaskrifstofuna Kilroy og fékk minn eigin ráðgjafa. Ferðaráðgjafinn minn kom með hugmyndir að áfangastöðum, ævintýraferðum og sjálfboðaliðaverkefnum. Á mettíma vorum við komin með tröllvaxna ferð sem innihélt m.a. tjaldferðalag í Afríku, tvenn sjálfboðaliðastörf, námskeið, köfunarskóla, ævintýraferð í Ástralíu og eyjahopp á Fiji eyjum.
Er ekkert erfitt að láta vaða og fara í svona ferðalag?
„Fyrir mér var ekkert svo erfitt að láta vaða í svona ferðalag, ég vissi að ferðalagið sjálft yrði erfitt en ég var alltaf föst á mínu á að fara ein útí heim. Tilgangur ferðarinnar var að skora á sjálfa mig og einmitt rekast á erfiða hluti sem tókst nú bara svona ljómandi vel, þessi ferð var hvorki átakalaus né áfallalaus!“.
Teygjustökk við Vikoríufossa
Þetta er ekkert eðlilegur ferðamáti, af hverju ákvaðstu að fara til þessara landa og gista m.a. í tjaldi?
„Það er ekki auðvelt að ferðast ein á milli landa í Afríku svo ég leitaði mér að hópferð. Ég féll strax fyrir tjaldferðalagi á vegum G Adventures vegna þess hve fjölbreytt sú ferð var. Það sem stóð uppúr í þessari ferð var Kande ströndinni við Lake Malawi. Á Kande fórum við í göngutúr um þorpið, skoðuðum kirkjuna, spítalann, skólann og fengum að sjá hvernig þau lifa. Dagurinn endaði svo með heimalöguðum kvöldmat og danskennslu í afrískum dansi. Maturinn í þessari ferð var ekki sá besti en það er kanski ekki að marka þar sem ég er mjög matvönd svo þetta var mikil áskorun fyrir mig, en það var víst ekkert annað í boði. Ferðin endaði með miklu adrenalíni í Livingstone við Viktoríufossa þar sem ég fór meðal annars í river rafting og teygjustökk.“
Bjargaði mannslífum í Tælandi
Hvað stendur upp úr eftir svona ferðalög?
„Í Eþíópíu komst ég ekki inní landið því að ég var ekki með áritun, þau hleyptu mér að vísu í gegn eftir um 21 klukkustunda bið þegar ég setti upp hvolpaaugun og sýndi þeim mynd af SOS styrktarbarninu mínu sem ég var að fara heimsækja. Ég var án matar, með enga svefnaðstöðu og í mjög takmörkuðu sambandi við fjölskyldu og vini. Þessi bið og óvissa var alveg þess virði því ég fékk að heimsækja SOS þorpið, styrktarbarnið mitt hann Alebes Mammo og SOS fjölskylduna hans.
Nálægðin við dýrin var svakaleg og þá sérstaklega í tjaldferðalaginu. Hádegismatnum var stolið úr höndunum mínum af risa fugli, bavíani braust inn í tjaldið mitt og stal af mér snakki. Ég vaknaði einn morguninn í spreng en ákvað að halda í mér þegar ég sá nashyrning í um 20 metra fjarlægð frá tjaldinu.
Skandaalkamp er þorp í Suður Afríku þar sem ég vann sem sjálboðaliði á leikskóla. Á þessum tíma var að kólna í veðri svo ég lagði til að safnað yrði fyrir vetrarfötum, það gekk bara svona rosalega vel, ég ásamt börnunum máluðum og skrifuðum á boli og ég seldi í gegnum Facebook. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir alveg ómetanlegan stuðning. Öll börnin fengu vetrarfatnað og fór um helmingur í neyðarsjóð sem er notaður þegar börnin þurfa að sækja sér læknisaðstoðar.“
„Í Tælandi varð ég ásamt fjórum öðrum vitni af hræðilegu mótorhjólaslysi. Leigubílstjórinn gerði lítið úr þessu og hálf glotti en við börðumst fyrir því að hann mundi stöðva bílinn sem hann gerði. Við vorum fyrst á vettvang, á götunni lá kona og karl meðvitundarlaus. Við fórum strax í að tékka púls og öndunarveg og báðum leigubílstjórann um að hringja á sjúkrabíl. Það kom sér vel að ég er menntaður sjúkraliði og hef unnið víða í heilbrigðiskerfinu, ég náði að halda ró minni og tók strax stjórn á vettvangi. Þau voru bæði með veikan púls og hæga öndun, á tímapunkti átti ég ekki von á að þau mundu lifa þetta af. Við gerðum allt sem við gátum í þessum aðstæðum, en á meðan umkringdi fólk okkur og tók myndir. Eftir nokkrar mínútur rönkuðu þau við sér og okkar verkefni var að reyna að halda þeim kyrrum þar sem þau voru augljóslega illa brotin. Ég sat hjá konunni allan tímann til að ganga í skugga um að öndunarvegurinn væri opinn og hún myndi ekki að færa sig til. Það var ekki auðvelt þar sem leigubílstjórinn lamdi í mig margsinnis og ýtti mér í burtu en ég barðist fyrir mínu og neitaði að fara frá konunni þar til sjúkrabíllinn kæmi. Fólk veltir því kannski fyrir sér afhverju leigubílstjórinn hafi verið að lemja mig, jú menningarheimar okkar eru mismunandi, ef þau hefðu ekki verið tryggð hefði ég líklegast borið ábyrgð á lækniskostnaði þeirra.
Um fjórum dögum eftir slysið hringdi ég á sjúkrahúsið og óskaði eftir upplýsingum um þau. Ég fékk þær upplýsingar að maðurinn hafi verið ílla brotinn á annari löppinni og farið úr axlarlið en konunni var hinsvegar haldið sofandi í öndunarvél, rifbeinsbrotin, hryggbrotin og fótbrotin. Læknirinn á sjúkrahúsinu þakkaði svo innilega fyrir, hann spurði mig hvort ég gerði mér grein fyrir því hvað við hefðum gert fyrir þetta fólk. Annars væru þau sennilega ekki á lífi í dag.“
Finnst þér þú hafa lært mikið af þessari lífsreynslu og hefur þetta breytt þér?
„Þetta ár hefur verið mjög lærdómsríkt, sjálfstraust mitt hefur aukist mikið og ég hef fengið nýja innsýn inní lífið. Ég þurfti svo sannalega að standa á eigin fótum og læra að bjarga sjálfri mér. Á Balí fór ég í einkameðferð hjá Ósk þerapista og jógakennara. Þar lærði ég aðferðir til að elska sjálfa mig, auka sjálfstraust mitt og öðlast meiri lífgæði.“
Ísland er öruggur staður
Í framtíðinni sér Aníta fyrir sér að starfa sem hjúkrunarfræðingur og taka þátt í heilbrigðistengdum verkefnum víðsvegar um heim. Hún hefur nú þegar tekið fyrsta skrefið í átt að því markmiði þegar hún hóf fjarnám í hjúkrunarfræði við háskólann á Akureyri nú s.l. haust.
„Eftir að hafa í rúma fjóra mánuði ferðast um heiminn kom ég heim en ég fann fljótt að ég var ekki komin með nóg og ákvað að fara aftur út eftir aðeins fimm vikna stopp á Íslandi. Ég tók skólabækurnar með mér til Cape Town í Suður-Afríku, stundandi námið af kappi og aðstoðaði svo á leikskólanum sem ég hafði verið að vinna sem sjálfboðaliði nokkrum mánuðum áður. Tæpum tveimur mánuðum síðar neyddist ég hreinlega til að koma aftur heim.“
Sennilega hefur þú lært að meta eða horfa öðruvísi á Ísland eftir af hafa verið á öllum þessum ólíku stöðum?
„Ísland er öruggur staður, samfélagið og þjónustan sem við búum við er ekki sjálfgefin. Við ættum að líta á það sem forréttindi að hafa fæðst hér og fá að búa á þessu landi.“