Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Forréttindi að fá að starfa við áhugamálið
  • Forréttindi að fá að starfa við áhugamálið
Sunnudagur 11. júní 2017 kl. 06:00

Forréttindi að fá að starfa við áhugamálið

Keflvíkingurinn Ársæll Aðalbergsson, eða Sæli eins og hann er kallaður, stjórnar Vatnaskógi, stærstu sumarbúðum landsins. Á hverjum sumri dvelja um þúsund börn og unglingar í sumarbúðunum. Þeir eru margir Suðurnesjamennirnir sem eiga góðar minningar eftir dvöl í Vatnaskógi. Á síðustu árum hefur verið mikil uppbygging í Vatnaskógi og um þessar mundir er verið að ljúka við nýja 550 m² viðbyggingu við Birkiskála sem er svefn- og þjónustuskáli staðarins og mun bæta gistiaðstöðuna til mikilli muna. Í sumar mun gistiaðstaða í fyrsta sinn vera öll undir einu þaki.
„Það eru mikil forréttindi að fá að starfa við áhugamálið sitt. Það eru mjög margir sem leggja starfinu í Vatnaskógi lið og meðal þeirra eru margir af Suðurnesjum. Í dag eru tveir af stjórnarmönnum Vatnaskógar Suðurnesjamenn, þau Páll Skaftason og Nanna Guðný Sigurðardóttir,“ segir Sæli.
 
Móinn og heiðin gáfu endalausa möguleika til leikja og ævintýra
„Ég er Keflvíkingur, ólst upp á Smáratúninu og á margar góðar minningar frá þeim tíma sem ég var að alast upp. Hverfið sem ég ólst upp í var efsta hverfi bæjarins á þessum tíma, móinn og heiðin gáfu endalausa möguleika til leikja og ævintýra. Aðalbergur Þórarinsson faðir minn vann lengst af sem leigubílstjóri í Keflavík, hann er hættur núna og leggur áherslu á púttið þessa dagana. Ólafía Einarsdóttir móðir mín vann hjá Varnarliðinu mest af starfsævi sinni. Foreldrar mínir búa ennþá í Keflavík.“
 
Knattspyrnufélagið Fallbyssan
„Það var mikið spilaður fótbolti í hverfinu á þeim tíma sem ég var að alast upp. Við strákarnir í hverfinu stofnum m.a. knattspyrnufélagið Fallbyssuna. Þegar ég hugsa til baka grunar mig að nafnið hafi komið vegna þess að það voru alltof margir Arsenal-menn í hópum og við hinir vorum of ungir til að fatta það. Sjálfur hef ég verið mikill Tottenham-aðdáandi frá 1971 og nokkuð sáttur við mína menn um þessar mundir.“
Seinna heillaðist Sæli af körfuboltanum og segir að það var hafi verið mjög skemmtilegt að fara með félögunum í körfu.
„Þar átti ég oft á brattann að sækja þar sem margir þeirra voru með bestu leikmönnum Íslands á þessum tíma,“ segir Sæli.

Tók við stöðu framkvæmdastjóra árið 1999


„Þeir sem dvelja í Vatnaskógi eru kallaðir Skógarmenn. Eldri strákarnir í götunni voru miklir Skógarmenn og ég hreifst strax með. Ég fór fyrst í Vatnaskóg 1972, þegar ég var 10 ára gamall.
Á unglingsárunum fór ég í Vatnaskóg í vinnuflokka þar sem unnin voru ýmisleg störf.  Ég fór að taka þátt í starfi KFUM í Keflavík og síðar hjálpa til sem unglingur í Vatnaskógi. Ég var sumarstarfsmaður eitt sumar.“
Sæli tók ungur sæti í stjórn Vatnaskógar og var fljótlega orðinn formaður. Í kjölfar aukinnar notkunar árið 1992 var ráðinn framkvæmdastjóri og þegar hann hætti tók stjórn Vatnaskógar við verkefnunum hans. Með aukinni notkun á staðnum, fjölgaði verkefnum í Vatnaskógi og ákveðið var að Sæli myndi hætta í stjórninni árið 1999 og taka við stöðu framkvæmdastjóra.  
 
Mikil aukning yfir vetrarmánuðina
Fram til ársins 1992 var Vatnaskógur nánast eingöngu  sumarbúðir og lítil sem engin starfsemi yfir vetrarmánuðina. Það var mikil breyting árið 1992 þegar Vatnaskógur tengdist hitaveitu sem verið var að koma upp í Hvalfjarðarsveit. Það að fá tengingu við hitaveituna gjörbreytti möguleikum á nýtingu á staðnum yfir vetrarmánuðina. Nú yfir háveturinn koma hópar flestar helgar, á vorin koma leikskólar og taka þátt í dagskrá sem Vatnaskógur býður upp á, þar á meðal leikskólar úr Reykjanesbæ. Í júní hefst sumarstarfið og stendur fram í ágúst en þá hefjast fermingarnámskeið sem standa fram í lok nóvember.
 
Gauraflokkur í 10 ár
„Við erum alltaf að reyna nýja hluti, sumir ganga ekki en aðrir verða fastir þættir í starfinu hjá okkur, t.d. Gauraflokkur sem er flokkur ætlaður drengjum 10 til 12 ára sem greinst hafa með ofvirkni, athyglisbrest eða skyldar raskanir. Þar er áhersla lögð á að þátttakendur fái mikla hvatningu og þeir finni kröftum sínum uppbyggilegan farveg og örva til uppbyggilegra leikja og útiveru og nýta umhverfi sumarbúðanna til þess. Í ár fögnum við 10 ára afmælis verkefnisins. Þess má geta að einnig er í boði samskonar flokkur fyrir stúlkur í Kaldárseli, sem einnig eru sumarbúðir KFUM og KFUK“.
 
Stelpur líka í Vatnaskógi
Vatnaskógur hefur verið í gegnum tíðina verið nær eingöngu fyrir drengi. Nú hefur orðið breyting á og er einnig í boði flokkur fyrir stúlkur 12 til 14 ára í júlí og í ágúst er í boði unglingaflokkur fyrir bæði stelpur og stráka 14 til 17 ára. Auk þess starfrækir KFUM og KFUK sumarbúðir í Vindáshlíð í Kjós, Ölver undir Hafnarfjalli, Kaldársel skammt frá Hafnarfirði og Hólavatni sem er norður í Eyjafirði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024