Fornleifar frá landnámsskálanum í Höfnum til sýnis
Byggðasafn Reykjanesbæjar sýnir áhugaverðar fornleifar frá fornleifarannsókn á landnámsskála í Höfnum síðastliðið vor í Víkingaheimum í Reykjanesbæ á Safnahelgi á Suðurnesjum sem fram fer nú um helgina.
Dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur mun kynna rannsóknina kl. 11 á morgun, laugardag, en rústir þess sem talið er vera landnámsskáli fundust árið 2002 fyrir aftan Kirkjuvogskirkju.
Með sýnum sem tekin voru úr eldstæði í gólfi skálans var staðfest að skálinn væri ekki yngri en frá árinu 900. Þannig er hann með elstu staðfestu mannvistarleifum sem fundist hafa á Íslandi. Eftir að farið var yfir svæðið með jarðsjártæki og það kortlagt sáust fyrir utan skálann fleiri rústir sem talið er að séu útihús og skemmur.
Fornleifarannsóknin er á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar sem fékk styrk til hennar frá Menningarráði Suðurnesja.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson hafi fengið land frá fóstbróður sínum Ingólfi Arnarssyni milli Vágs og Reykjaness, sem venjulega er túlkað sem landið sem Hafnahreppur náði yfir. Talið er mögulegt að hér sé því kominn bústaður Herjólfs, sem var langafi Bjarna Herjólfssonar sá sem fyrstur (ásamt áhöfn sinni) Evrópumanna leit meginland Ameríku augum.
Fornleifafræðistofan undir stjórn dr. Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings stjórnaði rannsókninni sl. vor en með þeim voru nemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands í verklegu námi.
---
VFmynd/elg - Frá fornleifauppgreftrinum í Höfnun síðastliðið sumar.