Formlegri leit að Tinnu hætt

Formlegri leit að tíkinni Tinnu hefur verið hætt. Hún týndist 29. desember í Reykjanesbæ, þar sem hún var í pössun. Fjöldi fólks hefur leitað Tinnu á Suðurnesjum og í Hafnarfirði en leitin hefur engan árangur borið.

Stofnuð var Facebook-síða fyrir leitina og kemur þar fram að dregið verði úr formlegri leit að Tinnu og að fáir aðilar muni grennslast fyrr um Tinnu. „Með því vonumst við eftir að Tinna láti frekar sjá sig á vappi, þar sem hún er án vafa mjög hrædd og kvekkt núna eftir svona langan tíma týnd. Einnig vonumst við til með þessu að við förum að fá haldbærari vísbendingar um hvar hún heldur sig eftir því sem róast á svæðinu sem hún er á. Fólk á Reykjanesi er mjög meðvitað um að Tinna sé týnd þannig að svæðið verður áfram mjög vel vaktað af íbúum svæðisins. Við munum kalla út leitarfólk um leið og við fáum staðfesta vísbendingu um að sést hafi til Tinnu,“ segir á síðu leitarinnar.