Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Formanninum fannst gaman að láta busa sig
Föstudagur 29. ágúst 2014 kl. 09:00

Formanninum fannst gaman að láta busa sig

- Stjórn nemendafélagsins vill busavígslur áfram

Talsvert hefur verið rætt um busavíglur að undanförnu og svo virðist sem þær séu hreinlega að deyja út. FS er einn þeirra skóla sem ætlar ekki að taka þátt í slíkum vígslum og taka frekar sómasamlega á móti nýnemum: „Mér fannst ógeðslega gaman að vera busuð, þannig að ég skil þetta ekki. Mér finnst að þetta ætti að vera val, þú mætir ef þú vilt vera busaður en heldur þig heima ef svo er ekki,“  segir Ásta María Jónasdóttir formaður Nemendafélags F?jölbrautaskóla Suðurnesja. „Við í stjórninni vildum allan tímann busa og ætlum ekki að taka þátt í því sem verður þá gert á busadaginn. Til stendur að fara í Reykjaneshöllina í leiki og það verður þá bara á vegum skólans en nemendafélagið kemur þar hvergi nærri,“ bætir hún við.

Ásta rifjar upp daginn sem hún var busuð en það segir hún hafa verið skemmtilega upplifun. „Þau voru voðalega mjúkhent við okkur þegar ég var busuð en sumir lentu frekar illa í því. Við fengum sérstakan busa-stimpil og svo var krotað aðeins á okkur. Við vorum látin skríða í gegnum einhverja þraut og borða svo „hot sauce“ og ég veit ekki hvað og hvað. Við vorum svo smúluð af slökkviliðinu og fórum í gegnum einhverja braut fyrir framan 88 húsið. Svo vorum við látin kyssa fiska en mér fannst þetta mjög gaman. Hins vegar skil ég það að ekki sé í lagi að þeir sem eru ekki einu sinni böðlar leyfi sér að taka jafnvel nýnema og henda þeim út í sjó eða eitthvað álíka, sem er kannski ekki eins skemmtilegt. Þetta verður örugglega voðalega fínt svona og við búum til öðruvísi busadag,“ segir formaðurinn.

Public deli
Public deli

„Mér fannst ógeðslega gaman að vera busuð, þannig að ég skil þetta ekki“

Skólastarf hófst í vikunni í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og nú þegar er starf nemendafélagsins komið á fullan snúning. Fyrirhugað er að setja upp söngleik í marsmánuði en undirbúningur er þegar hafinn. „Þetta verk hefur aldrei verið sett upp hér á landi áður,“ segir Ásta sem þó vill ekki gefa upp um hvaða söngleik sé að ræða.

Micha Moor og Eloq mæta á Busaballið

Ásta hefur verið formaður síðan í vor en hún hefur unnið hörðum höndum í allt sumar að því að skipuleggja næsta skólaár ásamt félögum sínum í stjórninni. Busaballið er á næsta leiti en þar verður öllu til tjaldað. „Við verðum með tvo erlenda tónlistarmenn, Micha Moor og Eloq sem munu spila á ballinu, og síðan munu hinir alíslensku Úlfur Úlfur einnig mæta. Þetta er með stærstu busaböllum sem haldin hafa verið hérna. Við erum alveg að tapa okkur í því að gleðja busana okkar,“ segir Ásta.
Formaðurinn er með nóg á prjónunum og segir mikið um að vera fyrir áramót í FS en þar á meðal má nefna undirbúning fyrir Morfís og Gettu Betur sem fara af stað eftir áramót. Til stendur að hafa sérstök nýnemakvöld í vetur og jafnvel verður farið í sérstaka nýnemaferð þar sem líklega verður farið í „paintball“ eða eitthvað slíkt. „Við stefnum svo að því að hafa brennu eða „bonfire“ í Sólbrekkum við Seltjörn ef veður leyfir. Við erum svo að reyna að koma á Kaffihúsakvöldum. Annars ætlum við að leggja þetta undir nemendur og spyrja hvað þau vilja gera,“ segir Ásta.
Félagslífið er stór hluti af lífi framhaldsskólanema og er það áskorun fyrir stjórnir að reyna að gera sífellt betur í því að skemmta nemendum. „Það ætla allir að gera betur en síðasti formaður en það er bara mjög erfitt. Við erum að reyna að breyta hugarfarinu hjá fólki en það er ekki svo auðvelt,“ segir Ásta sem man vel eftir því hversu skemmtilegt var í skólanum þegar hún var busi. „Busaárið mitt var ótrúlega skemmtilegt. Það skiptir svo miklu máli að þegar þú kemur í nýjan skóla að félagslífið sé brjálæðislega gott, þá hugsar þú ekki einu sinni um að skipta um skóla.“