Formaður Ljósanæturnefndar: „Samvinnan gerir Ljósanæturhátíðina einstaka“
Fjölskylduhátíðin Ljósanótt hefst fimmtudaginn 1. september klukkan 12 á hádegi þar sem verður sameiginleg opnunarhátíð Ljósanætur og Íþróttaakademíunnar. Grunnskólabörn munu fjölmenna á hátíðina og fara skrúðgöngur frá öllum skólum bæjarins að Íþróttaakademíunni. Þegar um fimmtudagskvöldið verður hægt að sækja fjöldann allan af tónlistaviðburðum á skemmtistöðum bæjarins.
Föstudagurinn hefst með bílasýningu í Reykjaneshöllinni í umsjá knattspyrnudeildar Keflavíkur og verður sýningin opin yfir hátíðina. Þá má búast við að fjölmargir listamenn opni listasýningar og gallerý þennan dag auk þess sem hægt verður að hlýða á ótal tónlistaratriði. „Það liggur fyrir að menningartengd dagskrá Ljósanæturhátíðarinnar hefur aldrei verið fjölbreyttari, en yfir 50 menningartengdir atburðir hafa verið skráðir. Eitt af einkennum hátíðarinnar frá upphafi er hversu mikið er lagt í menningarlegu hliðina undir styrkri stjórn Valgerðar Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa," segir Steinþór Jónsson formaður Ljósanæturnefndar og bætir því við að allir samstarfsaðilar í nefndinni ættu heiður skilinn fyrir vel unnin störf.
Aðalhátíðardaginn laugardag verður þétt dagskrá frá morgni til kvölds. Auk hefðbundinna atriða verður boðið upp á tækjasýningu frá Björgunarsveitinni Suðurnes auk þess sem íþróttum verður gerð góð skil en í Íþróttahúsinu við Sunnubraut verður Evrópuleikur í körfubolta milli Íslands og Danmerkur. Stjörnuspor Reykjanesbæjar verður afhjúpað en í ár verður minnig dægurlagasöngvaranna Ellýar Vilhjálmsdóttur og Vilhjálms Vilhjálmssonar heiðruð en þau eru bæði fædd og uppalin í Höfnum. Þá eru uppi áform um að tengja kvikmyndatökur Flags of our Fathers við hátíðina á einhvern hátt en nánari útfærsla kemur í ljós síðar. Laugardagskvöldið verður síðan með hefðbundnu sniði þar sem Bergið verður lýst upp og lýkur kvöldinu með flugeldasýningu í boði Sparisjóðsins í Keflavík sem hefur verið aðalstyrktaraðili hátíðarinnar í gegnum árin. Þó formlegri dagskrá kvöldsins sé lokið eftir flugeldasýningu munu skemmtistaðir og veitingarstaðir bæjarins taka við þar sem frá verður horfið.
Á sunnudeginum verður hægt að þræða sýningarsali bæjarins auk þess sem haldin verður samkirkjuleg messa í Keflavíkurkirkju. Ljósanæturhátíðinni lýkur svo formlega með hátíðarkvöldverð og tangódansleik í Bláa lóninu sem unninn er í samvinnu við Tango in Iceland og Tangófélag Reykjavíkur.
„Það má með sanni segja að enn á ný hafa bæjarbúar og tengdir aðilar lagt sig fram við að finna ný og skemmtileg atriði á Ljósanótt. Aldrei hafa jafnmargir lagt fram atriði eða uppákomur sem styrkja hátíðina enn frekar. Sérstæða Ljósanætur er fjölbreytileiki hennar auk þátttöku bæjarbúa sem koma ekki bara til að skemmta sér heldur leggja nótt sem nýtan dag við vinnu, hátíðinni til heilla," sagði Steinþór og ítrekaði að ekki væri mögulegt að telja upp öll þau atriði sem væru á hátíðinni í fljótu bragði, auk þess sem reynsla nefndarinnar væri sú að dagskrárliðir væru að bætast við fram á síðustu stundu. „Ég vil hvetja alla þá sem vilja taka þátt í hátíðinni að hafa samband við Ljósanæturnefndina svo hægt sé að koma atriðunum að í kynningum," sagði Steinþór að lokum og vildi koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt sitt að mörkum enda hátíðin unnin að mestu í sjálfboðavinnu.