Forgangsröðun
- Lokaorð Örvars Kristjánssonar
Ég starfa í ferðamannaiðnaðnum og hef áður skrifað um þau mál enda hef ég einnig brennandi áhuga á þessum bransa. Félagi minn frá Miami dvaldi hér á landi um síðustu helgi. Þetta var fyrsta koma hans til Íslands en þær verða eflaust fleiri, á ég fastlega von á. Ég var að sjálfsögðu duglegur að sýna honum áhugaverða staði hér á svæðinu. Við tókum góðan lunch hjá Erni á Soho, rúntuðum um Reykjanesið, hentum okkur í Bláa lónið og þá var kíkt á körfuboltaleik (þar sem Grindvíkingar fóru á kostum). Auðvitað var svo Gullni hringurinn tekinn á sunnudeginum með allri þeirri fegurð sem þar leynist.
Sá bandaríski var algjörlega heillaður af landi og þjóð, sérstaklega fólkinu og þá sér í lagi hér fyrir sunnan. Hins vegar, á neikvæðu nótunum, þá tók hann vel eftir því hversu slitnir og hættulegir þjóðvegirnir okkar eru orðnir hér á þessu svæði og okkur brá hreinlega á ferðalagi okkar. Ég hef ekki farið Gullna hringinn lengi og ég var eiginlega í smá áfalli. Við Geysi, sem dæmi, komum við að röð bíla sem allir voru með sprungin og skemmd dekk eftir djúpar holur í veginum og slysahættan á köflum þar mjög mikil. Tala nú ekki um að mæta erlendum ferðamanni á einbreiðri brú, algjörlega galið. Viðhaldi þjóðvegarins er ábótavant og með þessari gríðarlegu aukningu ferðamanna og bílaleigubíla þá er deginum ljósara að átak þarf í þessum málum. Við getum tekið á móti öllu þessu fólki en þá verðum við líka að fjárfesta betur í innviðum samfélagsins og samgöngurnar verða að vera í lagi, fyrst og fremst eins öruggar og hægt er. Tala nú ekki um á þessum stöðum sem taka á móti gríðarlegum fjölda fólks allt árið um kring, þar er mikilvægast að hefjast handa.
Reykjanesbrautin og Grindavíkurvegurinn eru svo auðvitað sér kapítular út af fyrir sig en ástand þessara vega er hroðalegt eins og við Suðurnesjamenn þekkjum allt of vel. Nú fer senn að hefjast enn eitt metsumarið í ferðamannabransanum og það er í raun byrjað þótt dagatalið segi kannski annað. Öryggi fólks á þjóðvegunum verður að tryggja. Það er gjörsamlega fráleitt að viðhald veganna sem á undanförnum árum hefur verið skorið niður sé ekki aukið núna í þessu góðæri sem hér ríkir. Ástandið er hreinlega það slæmt. En þetta er í höndum stjórnmálamannanna og því miður þá er erfitt að stóla á þá annars ágætu stétt. Þar tala menn um að það vanti aurinn en á meðan var peningum dælt í Vaðlaheiðagöng sem dæmi (einhverja heimskustu framkvæmd Íslandssögunnar) á meðan annað og mikilvægara sat á hakanum. Furðuleg forgangsröðun og það er hægt að benda á fleiri dæmi. Ferðamenn flykkjast hér til landsins, ýmsar ástæður eru fyrir því en ein þeirra er öryggi, fólki finnst það öruggt hérna. Úti á þjóðvegunum er það svo sannarlega ekki á meðan við leyfum vegakerfinu að grotna niður og ætla ég rétt að vona að menn spýti í lófana í þessum efnum. Óska ykkur öllum gleðilegra páska og farið varlega hvert sem förinni er heitið.