Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 11. júní 2001 kl. 11:08

„Forgangsmál að koma pakkhúsinu í viðunandi horf“

-segir Hjördís Árnadóttir formaður myndlistarfélagsins

Félag myndlistamanna í Reykjanesbæ hefur haft aðstöðu í Svarta pakkhúsinu, Hafnargötu 2 í Keflavík. Húsið þarfnast ýmissa lagfæringa til að hægt sé að nýta það sem skyldi og nú eru bæjaryfirvöld að skoða leiðir til úrbóta.
Þrátt fyrir ýmsa örðugleika þá er mikill hugur í myndlistarfólk og nýkjörinn formaður félagsins er Hjördís Árnadóttir. „Fyrrverandi stjórn tók við húsnæðinu frá bæjaryfirvöldum í enn verra ástandi en það er nú, þá var það ónothæft. Orka þeirra og kraftur fór öll í að koma húsinu í núverandi horf og engin tími gafst til innra starfs sem félaginu er ætlað að standa fyrir. Í ljósi þess fór núverandi stjórn á fund bæjarstjórnar og óskaði eftir að bærinn kæmi húsinu í viðunandi ástand og sæi um viðhald þess. Félagið er tilbúið að reka húsið og sjá um minniháttar viðhald. Þetta er enn allt á viðræðustigi, en þó er búið að ákveða að ráðast í framkvæmdir til að tryggja að hægt sé að vinna í húsinu, þ.e. verja það fyrir vatni og kulda, næsta vetur.
Á næstu mánuðum verður ýmislegt um að vera hjá félaginu. „Efst á lista er að koma húsnæðismálum í viðunandi horf en nú á að taka Svarta pakkhúsið í gegn. Þar verði aðstaða á neðri hæð hússins fyrir námskeið og sýningar á meðan efri hæðin er ónothæf. Á efri hæðinni verður sýningarsalur innan einhverra ára og þá getum við notað neðri hæðina til námskeiðahalds og undir vinnustofur“, segir Hjördís.
Í júní er áætlað að halda tvö tveggja vikna myndlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 10 – 12 ára. Eiríkur Árni Sigtryggsson, myndlistamaður og kennari mun sjá um námskeiðin. Áhersla verður lögð á undirstöðuatriði í myndlist og ef vel tekst til er hugmyndin að vera með framhaldsnámskeið næsta sumar. Stjórn félagsins vinnur nú að hugmynd um hvort hægt sé að hafa gangandi sölusýningu í Svarta pakkhúsinu. „Listaverk nokkurra listamanna yrðu þá til sýnis og sölu í ákveðinn tíma í senn. Ef hugmyndin kemst í framkvæmd verður ákveðinn fastur opnunartími og hann auglýstur fyrir bæjarbúa og ferðamenn“, segir Hjördís.
Félagið var stofnað haustið 1995 og hlutverk þess er m.a. að vera vettvangur fyrir myndlistamenn til að starfa saman að uppbyggingu myndlistar í byggðalaginu, koma myndlistamönnum á framfæri, bjóða uppá skipulögð námskeið í myndlist fyrir fólk á öllum aldri, gera myndlist sýnilegri í daglegu lífi bæjarbúa og efla um leið listvitund almennings og að vera tengiliður myndlistamanna við bæjaryfirvöld. Skráðir félagsmenn eru um 50, virkir félagsmenn eru milli 20 og 30.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024