Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Foreldrar og ungmenni tóku höndum saman
Sunnudagur 26. nóvember 2023 kl. 06:11

Foreldrar og ungmenni tóku höndum saman

„Við höfum sofnað á verðinum,“ segir Hafþór Barði Birgisson, Íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar en á dögunum var blásið í málþing í Háaleitisskóla á Ásbrú sem fékk heitið Tökum höndum saman. Markmið þingsins var að safna saman niðurstöðum frá umræðuhópum um stöðu barna og ungmenna í Reykjanesbæ og stefnumóta forvarnir út frá þeim. Eins að opna augu bæjarbúa fyrir stöðunni, opna á samtalið og taka skref í átt að breytingum og betra samfélagi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þátttakendur í málþinginu voru aðilar frá FFGÍR (Foreldrafélög grunnskóla í Reykjanesbæ), fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima, ungmennaráð Reykjanesbæjar, námsráðgjafar grunnskóla Reykjanesbæjar, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar, forvarnarfulltrúi lögreglunnar á Suðurnesjum, skólastjórnendur grunnskóla og Samtakahópurinn, sem er þverfaglegur forvarnarhópur í Reykjanesbæ.

Anita Engley Guðbjartsdóttir er verkefnastjóri hjá FFGÍR, hún var fyrst til að stíga í pontu og skýrði út hvað var gert þetta kvöld í Háaleitisskóla. „Þetta var ákall frá foreldrasamfélaginu, að fá fleiri að borðinu til að ræða stöðu barnanna okkar hér í Reykjanesbæ. Því miður segja rannsóknir okkur að unglingunum okkar líður ekki nógu vel og það var mjög sláandi að sjá að 43% ungmenna hugleiddu sjálfsvíg á síðustu 30 dögum, frá því að könnunin var gerð. Við getum ekki horft fram hjá þessu og við sem foreldrasamfélag þurfum einfaldlega að taka höndum saman. Það er ekki hægt að benda á eitthvað eitt atriði, þetta er samfélagslegt vandamál og við verðum öll að bregðast við,“ sagði Anita.

Hafþór Barði Birgisson er íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar og hefur verið í starfinu síðan um aldamót en á þeim tíma var unnið mjög gott forvarnarstarf en eitthvað sýnist Hafþóri að það sé farið að halla undan fæti. „Það eru blikur á lofti, við erum að sjá nýjar tölur sem að segja okkur að við megum ekki sofna á verðinum. Erlendar þjóðir hafa litið til okkar varðandi íslenska forvarnarmódelið sem var kynnt til sögunnar um aldamótin. Við virðumst aðeins hafa gleymt okkur og því fagna ég svona framtaki eins og hér í kvöld, þar sem foreldrar koma saman með ungmennunum og fagfólki og ræðir stöðuna. Það eru uppi kenningar af hverju það hefur hallað undan fæti, í COVID er eins og foreldrar hafi aðeins sleppt tökunum á börnunum sem eyddu þá meiri tíma í símanum og tölvunni og því miður eru nútíma áhrifavaldar alls ekki góð fyrirmynd fyrir börnin okkar. Við þurfum ekkert að finna upp hjólið til að snúa þessari þróun við, við erum með módelið fyrir framan okkur. Foreldrar, nærsamfélagið, skólinn og frítíminn þurfa að vinna saman. Það var gert hér um aldamótin með frábærum árangri sem tekið var eftir. Við þurfum bara að snúa vörn í sókn, við stöndum frábærlega hér í Reykjanesbæ. Það er magnað fyrir okkur að vera með mann eins og Krissa löggu, það eru ekki allir með svona samfélagslögreglumann sem er eins og rokkstjarna inni í öllum leik- og grunnskólum, á fjölbrautaskólaböllunum o.s.frv. Ég er sannfærður um að með samstilltu átaki snúum við blaðinu við,“ sagði Hafþór.

Sandra Rut Bjarnadóttir var ein fjölmargra foreldra sem mætti á málþingið, henni leist vel á vinnuna sem fór fram. „Þetta var dásamlegt og það var þörf á þessu. Ég hef áhyggjur af stöðu barnanna, maður heyrir ýmislegt þegar maður talar við börnin sín og hlustar á þau. Við foreldrarnir þurfum að vera meira vakandi, það er mjög stór munur á börnum í dag og þegar ég var ung, aðallega varðandi virðingu en börn og unglingar bera ekki nægjanlega virðingu fyrir fullorðnum í dag, hvað þá að þau beri virðingu fyrir lögreglunni. Við foreldrarnir eigum að ganga fram með góðu fordæmi, við eigum að sýna börnunum okkur virðingu og þá fáum við virðingu til baka. Ég er sannfærð um að þetta málþing í kvöld er upphafið að einhverju góðu, það var frábært að sjá alla þessa krakka koma og fróðlegt að heyra hvað þau hafa að segja,“ sagði Sandra.

Þetta málþing var fyrst og síðast fyrir ungmennin og var fróðlegt að heyra sjónarmið þeirra. Hermann Borgar Jakobsson er formaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar. „Mér fannst mikilvægt að rödd okkar ungmennanna fengi að heyrast hér í kvöld. Við vitum best hvernig staðan er, af hverju ætti ekki rödd okkar að heyrast? Ég veit að líðan ungmenna í dag er ekki nógu góð, það eru miklar kröfur settar á okkur, við eigum að standa okkur vel í íþróttum, félagsstörfum, náminu og vera gera eitthvað, ekki vera of mikið í símanum, það er stöðugt verið að segja okkur fyrir verkum. Staðan hefur versnað eftir COVID, það tímabil fór ekki vel í okkur. Ungmennin fóru að vera meira í símanum og sú umræða er mjög hávær, m.a. talað um að taka símana af öllum grunnskólabörnum. Ég er ekki sammála því að öllu leyti, jú það má alveg banna 1-7. bekk að vera með símann í skólanum en af hverju kennum við ekki frekar 8-10. bekk hvernig eigi að nota símana, kenna hvað ábyrg notkun er. Ég held að það sé miklu meira vit í því heldur en að koma með boð og bönn,“ sagði Hermann.

Daníel Már Gunnarsson vakti athygli á dögunum þegar hann var í viðtali á útvarpsstöð en umræðuefnið var snjallsímanotkun í skólum. „Ég ákvað að koma hingað í kvöld því mér finnst mikilvægt að raddir ungmenna heyrist. Það sem brennur heitast á mér er símalaust skólahald, ég hef talað fyrir að banna eða takmarka símanotkun í grunnskólum. Þetta hefur svo skaðleg áhrif, á einbeitningu nemenda, félagslíf, andlega heilsu, þetta snertir allt. Mér finnst að þetta eigi að gilda fyrir allan grunnskólaaldurinn, það er engin nauðsyn fyrir okkur að vera með þessi tæki í skólanum. Hins vegar er það líklega ekki raunhæft markmið, því tala ég í raun meira fyrir að takmarka notkun síma eins mikið og unnt er. Andlegri heilsu ungmenna hefur hrakað á undanförnum árum, ég held að það sé mest vegna skjáálags en að meðaltali eru ungmenni níu klukkustundir í símanum á dag, ungur heili sem er að þroskast þolir ekki meira en tvær klukkustundir svo það gefur auga leið að síminn er mjög stórt vandamál. Ég hef mætt á mörg svona málþing að undanförnu, þau eru mjög mikilvæg því þau vekja fólk til umhugsunar, ég er sannfærður um að við snúum taflinu við,“ sagði Daníel að lokum.