Foreldrar fjölmenntu á námskeið um netnotkun
Fræðslufundur undir yfirskriftinni „Að rata betur um netheima“ var haldinn í 88 Húsinu fimmtudagskvöldið 7. apríl. Fundurinn þótti takast vel en foreldrar fengu fræðslu um ýmisslegt er varðar tölvunotkun ungs fólks.
Meðal þeirra sem taka til máls voru:
Hafþór Barði Birgisson, forstöðumaður Fjörheima og 88 Hússins sem útskýrði ýmislegt tengt Netinu, t.d. hvernig blogg, MSN og webcam virka, og gaf raunveruleg dæmi um netnotkun barna og ungmenna hér í bæ.
Guðmundur Brói Sigurðsson, grunnskólakennari í upplýsinga-og tæknimennt sem deildi sinni þekkingu og reynslu af tölvum og tölvukennslu, og gaf ýmis ráð til foreldra.
Anna Margrét Sigurðardóttir, verkefnastjóri SAFT hjá Heimili og skóla-landssamtökum foreldra, sem sagði frá könnunum sem gerðar hafa verið um þessi mál, og gaf foreldrum góð heilræði um aukið öryggi í netnotkun. SAFT er átak um örugga notkun barna og ungmenna á Netinu og nýjum miðlum.
Auk þess voru opnar umræður þar sem ræðumenn svöruðu spurningum foreldra.