Fór til Ástralíu til að smíða sinn eigin gítar
-getur talið allar spýturnar sem fóru í gítarinn og allar rúmlega 100 klukkustundirnar
Arnar Freyr Valsson hafði dreymt í mörg ár um að smíða sinn eigin gítar, nú í sumar ákvað hann að grípa tækifærið og fór til Ástralíu og lét drauminn rætast. Hann fór á námskeið hjá Chris Wynne, en á þessu þriggja vikna námskeiði gafst honum kostur að smíða sinn eigin gítar algjörlega frá grunni.
Arnar lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2014 eftir að hafa lært á gítar í 13 ár. Arnar hefur bæði spilað með Léttsveit og Bjöllukór Tónlistarskólans og gekk í Listaháskóla Íslands.
„Því meira sem ég lærði á gítar og spilaði á fleiri mismunandi gítara þá hef ég myndað mína skoðun á því sem ég vil fá í gítar. Ég valdi allan viðinn sjálfur og fékk að velja hvaða módel ég notaði.“ Hauser 1937 varð fyrir valinu sem grunnur, en Arnar vildi auka hljómop á hliðina og einnig öðruvísi brú og eru það einu breytingarnar frá upprunalega módelinu. Arnar valdi Tasmanian Fiddleback Blackwood í bak og hliðar, Queensland Bunya Pine í toppinn, Queensland Maple í hálsinn og Queensland Gidgee í fingraborðið.
Spurður af hverju hann valdi ástralskan við segir Arnar að það sé því hann sé ekki mjög þekktur fyrir utan Ástralíu. Það var forvitnilegt að heyra að þeir viðir sem mest eru notaðir í klassíska gítara eru margir hverjir í útrýmingarhættu og því getur verið mjög erfitt að fá að nota þá. Það er ekkert þannig vesen með ástralska viðinn sem Arnar notaði og er það ein af ástæðunum fyrir því að Ástralía varð fyrir valinu. „Chris talaði um að þekktir smiðir í Evrópu hefðu mögulega notað ástralska viði hefðu þeir haft aðgang að honum.“ Einnig nefnir Arnar að stórir gítarframleiðendur eins og Martin og Taylor séu farnir að nota ástralskan við.
Gítarinn hefur allt það sem Arnar vildi, hálsinn er styttri en venjulega og hentar hans höndum fullkomlega. Þó að honum finnist gamli gítarinn sinn frábær þá er allt annað að spila á hans eigin gítar. „Ég get talið allar spýturnar sem fóru í gítarinn og allar rúmlega 100 klukkustundirnar, hann er bara mikið persónulegri fyrir mig“
Að lokum segir Arnar að hann væri algjörlega til í að prófa að smíða annan gítar og að tíminn verði að leiða það í ljós hvort þetta verði mögulega framtíðarstarf.