Fólkið skapar stemninguna
Sporthúsið byrjar nýtt ár af krafti.
Í upphafi hvers árs þegar jólahátíðinni lýkur hugsa margir sér til hreyfings og bættrar heilsu. Sagt er að nú skuli skrefið tekið til fulls til þess að koma sér í betra líkamlegt og ekki síður andlegt form. Hjá Sporthúsinu á Ásbrú hafa verið gerðar töluverðar breytingar innanhúss til að bæta aðstöðu enn frekar fyrir viðskiptavini. „Við hjá Sporthúsinu höfum lagt okkar af mörkum til þess að fólk geti stundað heilsurækt sína af kappi í aðstöðu sem við teljum vera orðna eina þá bestu á landinu, enda á Suðurnesjafólk skilið að rækta líkama og sál í toppaðstöðu,“ segir Ari Elíasson, framkvæmdastjóri Sporthússins í Reykjanesbæ.
Góð hvatning frá viðskiptavinum
Gríðarlega góð stemning hafi skapast í stöðinni frá upphafi, þótt hún sé ekki nema rétt rúmlega ársgömul. „Þau ummæli frá fólkinu okkar um að andrúmsloftið, snyrtimennskan, hreinlætið, framboð á tímum og námskeiðum séu til fyrirmyndar hlýjar okkur um hjartarætur og hvetja okkur enn frekar til að halda ótrauð áfram á þeirri braut sem við lögðum upp með. Við höfum viljað veita góða þjónustu, snyrtilega og hlýlega stöð með góðri stemningu. Hún kemur með fólkinu og það skapar andrúmsloftið,“ segir Ari.
Glæný tæki
Meðal breytinga sem ráðist var í sl.haust nefnir Ari splunkunýjan spinningsal með glæsilegu ljósa-„showi“ í takt við tónlistina, nýja og bætta barnagæslu og nýjan teygjusal, ásamt glæsilegum og endurgerðum Crossfit-sal. Að sama skapi var farið út í talsverðar fjárfestingar síðastliðið vor þegar pantaður var nýr tækjabúnaður frá Technogym á Ítalíu sem Ari segir að sé stærsti og jafnframt þekktasti framleiðandi líkamsræktartækja í heiminum í dag. „Tækin frá Technogym eru þekkt fyrir gæði, hönnun og útlit og skora nánast undantekningalaust best allra í samanburði á líkamsræktartækjum. Ekki má gleyma þeim tækja- og búnaðarkaupum sem áttu sér stað þegar við hófum sjálf að reka Crossfit-stöð undir nafninu Crossfit Suðurnes. Sá búnaður kemur að miklu leyti frá Rouge í Bandaríkjunum, þekktasta framleiðanda Crossfit-búnaðar í heiminum í dag.“
Aðgangur að báðum stöðvum
Allur þessi tækjabúnaður var tekinn í notkun í október og nóvember síðastliðnum. „Það má því segja að þeir sem stunda heilsu- og líkamsrækt í Sporthúsinu fái allt það besta sem völ er á í heiminum í dag,“ segir Ari og bætir við að í Sporthúsinu í Kópavogi hafi á sama tíma verið ráðist í stærstu framkvæmdir og fjárfestingar frá upphafi þegar megnið af tækjasal og upphitunarlínu voru endurnýjuð með tækjum frá Technogym. Þess má geta að viðskiptavinir Sporthússins fá aðgang að báðum stöðvum fyrir eitt verð.
Starfsfólkið helsti styrkleikinn
„Einn helsta styrkleika Sporthússins tel ég þó vera starfsfólkið sjálft en innan veggja þess eru á fimmta tug starfsmanna, hæfileikaríkir þjálfarar og kennarar ásamt starfsmönnum í móttöku, við ræstingar og barnagæslu og hefur starfsandinn verið gríðarlega góður allt frá upphafi,“ segir Ari. Markmið Sporthússins sé að bjóða upp á framúrskarandi aðstöðu til æfinga og líkamsræktar.
Jákvætt og gott viðmót
Áherslan er lögð á jákvætt og gott viðmót til viðskiptavinarins, tækjabúnaður sé ávallt í lagi og gert við svo fljótt sem unnt er þegar eitthvað bregst. Einnig séu þrif tíð og góð svo stöðin sé ávallt snyrtileg. Með þessu er lögð áhersla á jákvæða upplifun viðskiptavinarins. „Við hvetjum því alla til að kíkja við hjá okkur í Sporthúsinu og skoða aðstöðuna, prófa tíma og ræða við ráðgjafa okkar um hvers er leitað að og hvers er vænst. Við munum alveg örugglega finna eitthvað við þitt hæfi eins og slagorð okkar segir „Sporthúsið, heilsurækt fyrir alla.“