Fólki mismunað eftir þjóðerni er varðar kosningarétt
Fida fulltrúi Suðurnesjakvenna í pistlaröð mbl.is.
Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna fékk mbl.is til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Eini fulltrúi Suðurnesja er orku- og umhverfistæknifræðingurinn Fida Abu Libdeh, en hún er einnig Suðurnesjamaður ársins 2014.
Í pistlinum fjallar Fida um jafnrétti óháð uppruna og hversu mikilbægur kosningarétturinn sé. „Ég el börnin mín upp við það hversu mikilvægt það er að kjósa og að hafa réttinn til þess, ég tek þau með mér á kosningaskrifstofur og útskýri fyrir þeim hvernig maður þarf að velja og af hverju það skiptir máli. Fyrir utan að mín skoðun skiptir máli í samfélaginu sem ég bý í ber ég mikla virðingu fyrir konum sem hafa barist fyrir því að við höfum þennan rétt og ég mun aldrei gera lítið úr þeirra baráttu með því að sitja heima og sleppa að kjósa og segja mína skoðun.“
Þá bendir Fida á að ýmislegt vanti upp á því enn sé fólki mismunað er varðar kosningarétt á Íslandi. „Við Íslendingar teljum að atkvæði innfluttra skipti mismiklu máli eftir því hvaðan þeir koma. [...] Misréttið felst í því að ef þú ert frá Norðurlöndunum þá er nóg að vera með lögheimili á Íslandi í þrjú ár, annars þarftu að bíða í fimm ár til að geta tekið þátt í sveitarfélagskosningum. Mér persónulega finnst það allt of langur tími þessi fimm ár. [...] Jafnréttisbaráttan er ekki unnin fyrr en jafnt hlutfall er af konum og körlum í öllum stigum þjóðfélagsins, sama hver uppruni þeirra er,“ segir Fida ennfremur í pistli sínum.