Fólk verður hissa hvað við eigum góða söngvara
– segir Jón Gunnarsson formaður Karlakórs Keflavíkur
Karlakór Keflavíkur fagnar sjötugsafmæli með stórtónleikum í Stapa þann 11. nóvember nk. Nú standa yfir stífar æfingar fyrir hátíðarkvöldið þar sem farið verður yfir sögu kórsins í máli, myndum og fyrst og síðast söng. Við settumst niður með formanni Karlakórs Keflavíkur sem er tiltölulega nýlega byrjaður að syngja. Það var árið 2015 með fimm hundruð manna kór á kóramóti í Reykjanesbæ.
Hvað eruð þið að gera á þessum merku tímamótum?
„Nú er allt á fullu í að undirbúa stórtónleika sem verða haldnir 11. nóvember í Stapa í tilefni af 70 ára afmæli kórsins. Karlakór Keflavíkur er stofnaður 1. desember 1953 en á sjálfan afmælisdaginn verður veisla fyrir félagsmenn í félagsheimili kórsins við Vesturbraut í Keflavík.“
Hvað ætlið þið að gera á þessum tónleikum?
„Þarna verður farið yfir sögu kórsins í máli og myndum. Það verður farið í gegnum lögin sem hafa verið vinsælust í gegnum tíðina. Við munum taka gömul lög frá þeim tíma sem kórinn var stofnaður, frá fyrstu tónleikunum og af fyrstu plötunum okkar. Við förum einnig yfir búningasöguna en þetta er einn litríkasti karlakór á landinu. Ég held að það séu fáir karlakórar búnir að vera í eins mögum litum af kórbúningum og við förum í gegnum þá sögu. Ég á ekki von á öðru en þetta verið bara skemmtileg kvöldstund.“
Er eitthvað sem einkennir Karlakór Keflavíkur?
„Ætli það séu ekki bara búningarnir. Við erum bara með hefðbundin karlakóralög en núna síðari árin höfum við látið útsetja lög eftir nútímahöfunda eins og Ásgeir Trausta, Braga Valdimar, létum útsetja lag eftir Hjálma og núna létum við útsegja lag eftir Bubba Morthens. Ég veit ekki hvort aðrir karlakórar séu eins duglegir í svona lagaflutningi eins og við. Okkur finnst gaman að taka ný lög inn í dagskránna líka.“
Hvernig er starfið hjá ykkur, hvað eruð þið virkir?
„Við æfum tvisvar í viku, á mánudagskvöldum og fimmtudagskvöldum. Við erum yfirleitt með jólatónleika en sleppum þeim væntanlega núna þar sem það er mikið umleikis um þessar mundir. Við tökum kannski bara nokkur jólalög við tækifæri úti í bæ í staðinn. Þá erum við einnig með vortónleika. Það hafa verið farnar utanlandsferðir en það er langt síðan við fórum síðast, þannig að það er kominn hugur í menn að safna pening og reyna að komast eitthvað út. Við höfum tvisvar haldið Kötlumót en Katla er samband sunnlenskra karlakóra. Síðast héldum við þetta mót árið 2015 á Ásbrú og þótti takast mjög vel til. Við settum upp risastórt svið í Atlantic Studios og á þeim tíma byrjaði ég í kórnum. Fyrsta reynsla mín af karlakór var að syngja í 500 manna karlakór á sviðinu þar. Þetta var mögnuð upplifun og ég hef ekki hætt eftir það.“
Hvernig gengur að draga karla inn í kórastarf?
„Það gengur ekki nógu vel, sérstaklega ungu mennina. Þeir eru eitthvað uppteknir í öðru. Við erum að reyna að höfða til yngri mannanna með því að útsetja þessi nýju lög. Það koma alltaf einn og einn en ílengjast ekki alltaf. Við höfum náð að halda dampi en það var erfitt í Covid. Það var erfitt tímabil fyrir alla kóra en það er mjög harður kjarni hérna í kórnum sem fer í gegnum súrt og sætt. Sá kjarni er búinn að halda þessu saman. Við erum líka að vaxa aftur eftir Covid-tímabilið.
Þið eruð með stjórnanda úr heimabyggð. Er það betra?
„Já, við erum með Jóhann Smára stórsöngvara. Ég er á því að það sé betra og hann er mjög virkur fyrir kórinn og búinn að kenna okkur mikið. Hann er frábær söngvari og hefur kennt okkur hvernig við eigum að haga okkur í söngnum. Það hafa orðið miklar framfarir á kórnum eftir að hann tók við okkur.“
Jón segir að það sé allur gangur á því hvernig söngmenn koma í Karlakór Keflavíkur. Sumir komi blautir á bak við eyrun á meðan aðrir séu reynslumeiri. „Ég hafði aldrei verið í kór þegar ég byrjaði og hef lært mjög mikið af Jóhanni Smára og er orðinn betri söngvari í dag en þegar ég byrjaði. Á afmælistónleikunum ætlum við að láta okkar menn njóta sín, því við eigum orðið mikið af frambærilegum söngvurum. Einsöngvararnir koma allir úr röðum kórsins. Okkur finnst viðeigandi á þessum tímamótum að láta kórmenn njóta sín á þessu kvöldi. Ég held að fólk eigi eftir að vera hissa hvað við eigum góða söngvara,“ segir Jón Gunnarsson.