Fólk tekur eftir verðlagi og þjónustu
Framundan eru 47. jól frá stofnun fjölskylduverslunar Gerorgs V. Hannah.
Úra- og skartgripaverslun Georgs V. Hannah hefur frá stofnun árið 1968 verið staðsett að Hafnargötu 49 í Keflavík. Það er öllu gjöfum pakkað fallega inn og það kostar ekkert aukalega. Starfsfólk og eigendur segja jólaverslunina byrjaða og að viðskiptavinir fylgist vel með vöruverði.
„Hérna biðja langflestir okkur um að pakka inn gjöfunum. Svo setjum við á þær fínar slaufur. Héðan fara varla gjafir út nema vera pakkað fallega inn. Og ekki er tekin króna fyrir það,“ segir Vordís Heimisdóttir starfsmaður verslunarinnar til margra ára. Hún segir einnig að starfsfólkið reyni að leiðbeina við val á gjöfum. „Það er alveg magnað hvað við munum af því sem fólk hefur keypt. Margir fastakúnnar sem við þekkjum vel til. Þeir segja þegar þeir koma hingað að þeir komi aftur og aftur vegna þess að vöruúrvalið er mikið. Í litlu bæjarfélagi eru líka meiri líkur á því að vita hver maki viðskiptavinarins er og geta þannig lagt mat á það sem hann kaupir. Hann fær persónulegri þjónustu fyrir vikið.“
Smíða skart úr gulli viðskiptavina
Í versluninni er seld gjafavara, úr og skartgripir. Skartið er alveg frá ódýru, sem er fjöldaframleitt úr silfri og upp í sérsmíðað af Eggerti, syni Georgs. „Hann smíðar líka eftir pöntunum. Sumir eiga mikið af gulli og það er hægt að láta smíða úr því í stað þess að selja það einhverjum. Það fæst svo lítið fyrir brotagull sem keypt er sem er endurunnið. Ef fólk er að hugsa um að fá sér eitthvað gull þá borgar sig að leggja fram gullið. Þá borgar það bara fyrir vinnuna,“ segir Georg og bætir við að einnig sinni feðgarnir viðgerðum. „Við erum hér á sínum hvorum básnum. Eggert er lærður gullsmiður, svo kemur fyrir að ég hóa í hinn soninn, Rúnar Inga, sem er lærður úrsmiður. Hér hjálpast allir að fyrir jólin.“
Verslanakjarninn hefur dreifst
Aðspurð segja Georg og Vordís bæði að verslunin hafi gengið vel fyrir jólin í fyrra. „Fólk kemur fyrr að kaupa jólagjafir en þó er alltaf sama stemningin á Þorláksmessu. Alltaf einhverjir á síðustu stundu. Það er bara þannig. Sumum finnst ekki passa að kaupa jólagjafirnar fyrr en á Þorláksmessu. Aðrir eru búnir að fara á milli og skoða og ákveða sig svo rétt fyrir jól,“ segir Vordís. Á tímabili voru þrjár skartgripaverslanir í miðbæ gömlu Keflavíkur. „Þá var verslanakjarninn hérna en hefur dreifst meira yfir svæðið, að Fitjum og Krossmóa,“ segir Georg.
Bjóða upp á góð verð
Georg segir æ meira orðið um að fólk eigi fleiri en eitt úr. „Það er vel hægt að eiga tvö úr eins og tvenna skó eða tvenna jakka.“ Í gjafavöru hafi mikið verið selt af vörum frá Ittala, Georg Jensen og Rosendahl. „Það gengur allt árið. Við bendum líka á að ef hluturinn er ekki til hér að þá getum við útvegað helling þótt hilluplássið bjóði ekki upp á meira. Þannig spörum við tíma, fyrirhöfn og eldsneyti fyrir viðskiptavininn,“ segir Vordís og að þónokkuð sé af því að fólk spái í þetta og nýti sér þjónustuna. „Viðskiptavinirnir koma víða að því við bjóðum upp á góð verð. Fyrir jólin í fyrra komu hjúkrunarfræðingar sem starfa á HSS, en búa á höfuðborgarsvæðinu. Þær keyptu gjafavörur hér því verðið var hagstæðara. Svona spyrst út.“ Georg bætir við að fólk virðist fylgjast mjög vel með verðlagi og viti hvað hlutirnir kosti. „Það þýðir að við verðum líka að vera dugleg að fylgjast með,“ segir hann og brosir.