Fólk og fígúrur í Listatorgi
Það hefur verið mikið líf og fjör í Listatorgi Sandgerði eftir að það opnaði 1.desember sl. Nú er komið að listakonunni Döllu úr Keflavík að sýna í Listatorgi en myndirnar hennar þykja mjög skemmtilegar.
Dalla, eða Dagmar Róbertsdóttir eins og hún heitir fullu nafni, er frístundamálari sem byrjaði að mála árið 2001. Reynir Katrínar kenndi henni í tvö og hálft ár og svo sótti hún námskeið hjá Sossu, Hermanni Árna og Braga Einars. Aðalstarf Döllu er í Landsbankanum en aðaláhugamálið er listmálun sem gefur henni mikið að hennar eigin sögn.
Dalla segir að hugmyndirnar komi bara til hennar og hún máli þær í akrýl en einnig notar hún blandaða tækni með steypu ofl. Henni finnst skemmtilegast að mála folk og fígúrur en sýning hennar nefnist einmitt Fólk og fígúrur. Sýningin hefst föstudaginn 25.júlí og lýkur viku seinna eða sunnudaginn 3.ágúst. Opið er alla daga í Listatorgi frá klukkan 13 til 17.
Það er skemmtilegur rúntur að skreppa í Listatorg Sandgerði, sjá sýninguna hennar Döllu, kíkja einnig á munina í galleríinu og fá sér svo kaffi á Vitanum.