Fólk oft í geðshræringu yfir fegurðinni hérna
Artic Horses í Grindavík er hestaleiga sem aðallega byggist upp á ferðaþjónustu. „Við reynum að vera lítil og persónuleg og er ekki mikið um stóra hópa hjá okkur,“ segir Jóhanna Harðardóttir eigandi hestaleigurnar en mikið af pörum og litlum fjölskyldum sækja til hennar. Jóhanna er yfirleitt ein að sjá um útreiðartúra en annars stendur fjölskylda hennar einnig með henni í rekstrinum á hestaleigunni enda er þetta fjölskylduáhugamálið að hennar sögn. Jóhanna tók við rekstrinum af Helga Einari Harðarsyni en hún hafði verið viðloðandi reksturinn hjá honum í nokkur ár.
Vinsælt er að fara svokallaðan Hópshring þar sem Jóhanna segir mikið að sjá, m.a. gömul skipsflök og fallegt landslag. Jóhanna segir fjölmarga erlenda ferðamenn sækja í ferðir hjá henni og sér hún að fólk er að tengja saman heimsókn í Bláa Lónið og útreiðatúra. Jóhanna segir magnað að upplifa Ísland í gegnum útlendingana. „Sumir eru bara undrandi og hlægjandi allan tímann og ég hef alveg lent í því að fólk er hreinlega í geðshræringu yfir landslaginu hérna. Fólk hefur líka gaman af því hvað hestarnir eru vinalegir og smáir hérna.“
Túrarnir hjá Jóhönnu taka rúmlega klukkustund og segir hún það alveg vera nóg fyrir byrjendur, enda koma margir óvanir til hennar. Hún segir að ekki fari mikið fyrir Íslendingunum en þó slægist þar inn einn og einn. Aðallega eru erlendir ferðamenn að sækjast í þessar ferðir.
Hvernig verður sumarið, er nóg að gera? „Ég vona það,“ segir Jóhanna og hlær. Hún segir ekki mikið um það að fólk sé að panta ferðir langt fram í tímann og oft komi það fyrir að hringt sé í hana og hún farinn af stað með hóp eftir klukkutíma. „Ég vil hafa þetta persónulegt og ég held að fólk upplifi þetta betur þannig, í stað þess að vera kannski með 20 öðrum að reyna að hlusta á leiðsögumanninn. Ég er líka mikið með börnin mín með mér og útlendingarnir hafa mjög gaman af því. Þeir hafa mjög gaman af því að sjá lítinn hvíthærðan fimm ára gutta á hestbaki.“
En hvað segir Jóhanna um byggingu nýrrar reiðhallar sem er að rísa í Grindavík um þessar mundir hjá hestamannafélaginu Brimfaxa. „Ég er alveg alsæl með það og á eflaust eftir að geta nýtt mér það hús mjög mikið. Það lúmst mikil gróska í hestamennskunni hér í Grindavík og margir sem hafa þetta að áhugamáli,“ sagði Jóhanna að lokum.