Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Fólk baðaði sig í læknum á 4. holu“
Fimmtudagur 3. mars 2011 kl. 16:32

„Fólk baðaði sig í læknum á 4. holu“

-segir Sveinn Ævarsson, golfari

Sveinn Ævarsson, 48 ára Keflvíkingur og golfari, fór í janúarmánuði til Kampala í Úganda og spilaði auðvitað þar einn golfvöll. Hann starfar hjá utanríkisráðuneytinu og ferðast því töluvert starfsins vegna. „Mér finnst yfirleitt staðirnir sem eru lengst í burtu skemmtilegastir þ.e. staðir sem venjulegt fólk fer ekki í helgarferð til,“ sagði Sveinn aðspurður hvaða staðir væru mest spennandi. Eftir að áhuginn vaknaði á golfinu eftir langan dvala hefur Sveinn reynt að komast í golf hér og þar í heiminum þegar tími gefst til.

Í síðasta mánuði fór Sveinn í vinnuferð til Kampala í Úganda en þangað hafði hann komið einu sinni áður. Einnig fór hann til Nikaragúa fyrir tveimur árum og spilaði þar Nejapa golfvöllinn í Managúa sem er höfuðborg landsins. „Báðir þessir vellir eru flottir og nokkuð erfiðir. Miðað við þær aðstæður sem ríkja í þessum löndum eru vellirnir flottari en maður myndir ætla að öðru óreyndu.
Klúbbhúsið í Nikaragúa er virkilega flott og aðstæður til að spila golf mjög góðar. Þetta er 18 holu völlur og við þurftum að vera á golfbíl,“ sagði Sveinn. Einnig var þeim skaffaður kylfusveinn og var það skylda en svæðisins var gætt af vopnuðum vörðum, ekki alveg það sem Íslendingar eru vanir þegar þeir spila golf. „Í Úganda gisti ég á golfvallarhótelinu og hafði yfirsýn yfir völlinn út úr herberginu en hægt var að ganga beint inn á völlinn af hótelinu. Þetta klúbbhús er þó komið til ára sinna en þrátt fyrir það er aðstaðan flott og enginn fór á völlinn án kylfusveins, en ekki voru notaðir bílar.“
Sveini fannst þó einn ókostur við völlinn, en hann var sá að hann var opinn fyrir aðra en leikmenn þannig að menn gátu átt von á að einhverjir væru á vappi á vellinum á meðan á leik stóð. „Má nefna að á 4. holu, sem er par 3 braut var lækur sem þurfti að slá yfir og þar var fólk bara að baða sig þegar ég var að spila hana, frekar sérstakt,“ sagði Sveinn

Sveinn mun halda áfram ferð sinni um heiminn og vonast til að komast til Indlands og prófa kylfurnar þar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

[email protected]

Efri myndirnar eru teknar í Úganda en þær neðri í Nikaragúa. Á efstu myndinni má svo sjá Svein spila Nejapa völlinn í Managúa.




Um 50 km frá Nejapa golfvellinum er virkt eldfjall sem sést vel frá golfvellinum.