Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föðurhlutverkið  helsta áskorunin þessa dagana
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 3. október 2020 kl. 07:25

Föðurhlutverkið helsta áskorunin þessa dagana

Sigurbergur Elísson er 28 ára og býr í Reykjanesbæ. Hann er nýlega orðinn faðir og föðurhlutverkið er helsta áskorunin þessa dagana. Dóttirin er líka farin að uppgötva eigin rödd og hefur frá sér hljóð sem fá Sigurberg til að brosa. Annars er haustið að leggjast vel í okkar mann sem segir að fátt sé „betra“ en nokkrar hraustar haustlægðir. Sigurbergur var í netspjalli við blaðamann Víkurfrétta í vikunni.

– Hvað er það fyrsta sem þú gerir eftir að þú vaknar á morgnana?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fæ mér kaffibolla og bursta svo tennurnar.

– Hlustarðu á útvarp eða eitt og eitt lag á Spotify?

Ég hlusta meira á podcast heldur en útvarp, annars nota ég Spotify mjög mikið.

– Hvað raular þú eða syngur í sturtu/baði?

Ég hvorki raula né syng í sturtu, blessunarlega fyrir aðra á heimilinu.

– Hvaða blöð eða bækur lestu?

Fer mjög oft inn á þessar helstu fréttaveitur á hverjum degi þannig að ég les lítið af blöðum – en ég er mjög hrifinn af almennum lestri og þar eru skáldsögur í uppáhaldi, helst glæpasögur.

– Hvað er það fyndnasta sem hefur hent þig?

Þessi er erfið, ég man ekki neitt ákveðið í augnablikinu en þeir sem þekkja mig vita hvað mér tekst ótrúlega oft að koma sjálfum mér í vandræðalegar aðstæður.

– Hver fékk þig síðast til að brosa og hvers vegna?

Dóttir mín er farin að uppgötva röddina sína þannig að það var eitthvað hljóð sem kom frá henni sem fékk mig til að brosa.

– Hvað er það skemmtilegasta sem þú horfðir á nýlega í sjónvarpi?

Ég var að klára að horfa á heimildarþættina á Amazon um Tottenham í enska boltanum, þeir voru virkilega góðir.

– Uppáhaldsvefsíða:

fotbolti.net

– Uppáhaldskaffi eða -te:

Americano.

– Uppáhaldsverslun:

Á mér enga uppáhaldsverslun svo sem en ég get alveg gleymt mér inn í Elko.

– Hvað matreiðir þú ef þú vilt gera eitthvað gott fyrir fjölskylduna?

Ég er ekki þekktur fyrir hæfileika í eldhúsinu þannig að ég myndi líklega fara auðveldu leiðina og grilla bara pizzu.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér?

Ætli ég sjálfur fari bara ekki mest í taugarnar á mér.

– Hver er helsta áskorun sem þú hefur þurft að takast á við nýverið?

Að vera orðinn pabbi.

– Hvað er eftirminnilegast frá sumrinu?

Við gerðum rosalega lítið í sumar vegna ástandsins í heiminum í dag en ætli það sé ekki bara stundirnar með dótturinni og bústaðarferðin sem við fórum í. Einnig skírðum við dóttur okkar í ágúst, það var virkilega skemmtilegur dagur.

– Hvaða reglu hefur þú sett þér sem erfiðast er að fara eftir?

Að taka einn dag í einu, auðvelt að fara hugsa um komandi daga og vikur í staðinn fyrir að fókusera á daginn í dag.

– Ef þú værir að setjast á skólabekk í dag, hvað myndir þú vilja læra?

Veit ekki hvort það tengist skólabekk en það væri eitthvað í sambandi við knattspyrnu.

– Stóra fréttin síðustu daga:

Ætli það sé ekki að Keflavíkurstelpurnar voru að tryggja sæti sitt í Pepsi Max-deildinni að ári. Virkilega vel gert.

– Hvernig er haustið að leggjast í þig?

Bara þokkalega, fátt „betra“ en nokkrar góðar haustlægðir.

– Eru hefðir á þínu heimili tengdar haustinu?

Nei það hefur ekkert tíðkast hjá mér. Tengdamamma er samt hrifin af berjatínslu, ég þyrfti kannski bara að skella mér með henni í tínslu við tækifæri.