Flugukofinn gefur Virkjun höfðinglega gjöf
Júlíus Gunnlaugsson, eigandi Flugukofans á Sólvallagötu 6 í Reykjanesbæ gaf höfðinglega gjöf til Virkjunar mannauðs á Reykjanesi í vikunni. Júlíus gaf fimm fluguhnýtingarsett ásamt helling af efni til fluguhnýtingar í viðbót við það sem hann hefur áður gefið til Virkjunar en Virkjun hefur boðið upp á fluguhnýtingar á mánudögum og miðvikudögum í vetur.
Bergur K. Guðnason sjálfboðaliði í Virkjun hefur séð um fluguhnýtingarklúbbinn og verið með frábært starf og kennslu fyrir þá sem klúbbinn sækja. Virkjun hefur haldið úti ýmiskonar starfsemi fyrir atvinnuleitendur á Suðurnesjum í 2 ár og framboð af ókeypis hópastarfi og námskeiðum hefur aukist jafnt og þétt með tilkomu sjálfboðaliða.
Í Virkjun er fólki bent á leiðir til að virkja sjálft sig og er fólk sem er án atvinnu hvatt til að koma og taka þátt í því sem Virkjun hefur upp á að bjóða. Meðal þess sem er boðið upp á í Virkjun er enskukennsla, fjármálanámskeið, tölvukennsla og einnig er ýmis tómstundastarfsemi á vegum Virkjunar. Öflugasta dæmið er handavinnuklúbbur sem hittist tvisvar í viku, en aðrir klúbbar eru vaxandi og ennþá pláss fyrir fleiri. Virkjun byggir á þeirri hugmyndafræði að tækifærin séu endalaus, þau séu alls staðar og bíði eftir að einhver grípi þau.
Virkjun er opin alla virka daga frá kl. 08:00 til 16:00.
VF-Myndir/[email protected] - Júlíus Gunnlaugsson afhendir gjöfina Gunnari Halldóri Gunnarssyni fyrir hönd Virkjunar.