Flugu með kríunum
Haldið var námskeið hjá Flugmódelfélagi Suðurnesja fyrir ofan grófina í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Magnús Kristinsson formaður félagsins var með þrjá nemendur í kennslu sem voru að taka sitt fyrsta flug.
Að sögn Magnúsar er flókið að stjórna flugmódelum og huga þarf að mörgum atriðum. „Menn eru töluverðan tíma að ná þessu en við byrjum á því að keyra vélarnar eftir brautunum og í framhaldinu taka þeir á loft. Það er síðan erfiðast að lenda þeim en þetta er allt saman spurning um æfingu.“ Vélarnar svifum um loftið og var ekki annað að sjá en nemendurnir hefðu mikla tilfinningu fyrir fluginu. Krían var ekki jafn ánægð og hinir áhugasömu nemendur og reyndu að gogga í vélarnar.
Myndin: Hjalti Geir Guðmundsson, Gunnar M. Magnússon, Magnús Kristinsson og Albert Guidice með vélarnar sínar. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.