Flugkennarar taka þátt í Mottumars til heiðurs nemanda
Hópur af flugkennurum við Flugakademíu Íslands hefur skráð sig til þátttöku í Mottumars í ár. Hópurinn hefur sett sér það markmið að safna 200.000 kr til heiðurs flugnema sem háir nú baráttuna við krabbamein.
Á áheitasíðu hópsins segir „Sóley Björg útskrifaðist nýlega úr flugkennaranámi við Flugakademíu Íslands með frábærum árangri eftir að hafa flogið í gegnum atvinnuflugmannsnámið okkar.
Hún Sóley kallar alls ekki allt ömmu sína og býr yfir alveg ótrúlegum styrk og elju. Um það leiti sem hún lauk flugkennaranáminu ákvað lífið að leggja fyrir hana erfiða áskorun - brjóstakrabbamein. Eins og hún orðar það þá er það bara - „verkefni til að ljúka - áfram gakk“.
Við erum hópur af flugkennurum sem hafa fylgt Sóley í gegnum námið og viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að standa að baki þessari öflugu konu og leggja baráttunni gegn krabbameini lið.
Okkur þætti það ómetanlegt ef þið mynduð styrkja okkur í þessu verkefni - áfram gakk!”
Hópurinn hefur nú þegar safnað 60.000 kr. og segir Þórarinn Ólafsson, þjálfunarstjóri verklegrar deildar þau rétt að byrja. „Það má segja að frá degi eitt í flugnáminu hafi jákvæðni og elja verið einkennandi fyrir hana Sóleyju Björgu og orðin „Áfram gakk!“. Eftir þær fréttir sem við fengum af greiningu Sóleyjar og var ekki annað hægt en að fá alla þá kennara sem hafa komið að náminu hennar til að sýna henni allan þann stuðning sem við getum veitt. Fyrst áttu það að vera mottur, svo komu bleiku bindin þannig nú má segja „Bleik bindi, mottur og áfram gakk!“ Við stöndum með þér Sóley alla leið!"
Hlekkur á söfnunina: https://www.mottumars.is/keppnin/keppandi?cID=11553