Flugeldasýning í kvöld
Hin árlega flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Suðurnes verður í kvöld í Grænáshlíðinni ofan við höfuðstöðvar björgunarsveitarinnar við Holtsgötu í Njarðvík. Fjölskylduhátíð björgunarsveitarinnar verður í kvöld og hefst kl. 20 þegar jólasveinar koma í heimsókn.
Gestum og gangandi verður boðið upp á rjúkandi heitt kakó og nýbakaðar piparkökur og svo tekur við glæsileg flugeldasýning í boði Sparisjóðsins í Keflavík. Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt í fjölskylduhátíðinni og jafnframt að leggja björgunarsveitunum lið með því að versla flugelda á flugeldamörkuðum björgunarsveitanna fyrir áramótin.