Flugeldasjúkur kvikmyndagerðarmaður
Magnús Orri Arnarson greindist með Tourette þegar hann var í fjórða bekk og einhverfu í áttunda bekk, hann er úr Garði en býr núna á Ásbrú, flutti þangað í litla íbúð í desember. Magnús hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist kvikmyndum og byrjaði snemma að vinna í klippiforritum. Víkurfréttir settust niður með Magnúsi og við ræddum saman um lífið og tilveruna.
Þú elst upp í Garðinum og gengur í skóla þar ...
„... og síðan fer ég upp í FS [Fjölbrautaskóla Suðurnesja],“ botnar Magnús og heldur áfram: „Ég byrjaði þar á starfsbraut og fór svo þaðan á kvikmyndabraut. Á kvikmyndabrautinni lærði ég að fótósjoppa, grafíska hönnun og fleira en samt útskrifast ég af starfsbraut, sem er svona fyrir fatlaða, en er samt með gráðu í þessum áföngum; Photoshop og kvikmyndagerð.
Núna er þetta fullt starf hjá mér. Þegar ég var á þriðja ári í FS þá byrjaði ég í þáttunum Með okkar augum. Það byrjaði mjög óvænt út af því að ég var að keppa á heimsleikum Special Olympics árið 2019, í fimleikum, og hún Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, sem er framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, hún bað mig um að taka upp kynningarmyndband fyrir heimsleikana, fara og hitta keppendur í hinum og þessum íþróttum fyrir heimsleikana. Það sló svo algerlega í gegn víðs vegar um heiminn, sérstaklega á Íslandi. Hún Elín Sveinsdóttir, pródúser Með okkar augum, sá þetta vídeó og vildi endilega fá mig til að bætast í liðið Með okkar aukum.“
Hvað eruð þið mörg sem eru í ...?
„Við erum sex sem erum í Með okkar augum, með aðeins reyndara fólki eins og Elínu.“
Er þetta ekki rosalega gaman?
„Þetta er geggjað. Ég er búinn að vera að starfa þarna á sumrin og á meðan hef ég verið að taka alls kyns námskeið á veturna, í kvikmyndatökum og grafískri hönnun. Auka við þekkinguna, ég tók til dæmis námskeið hjá Stúdíó Sýrlandi í hljóðblöndun og er stundum að mixa tónlist og svoleiðis. Svo hef ég verið að taka námskeið í kvikmyndatökum þegar ég var ekki í vinnu og ég útskrifaðist úr fjölbraut í fyrra svo ég tók þessi námskeið með skólanum. Svo var ég líka að æfa fimleika og hafa tíma til að hitta vini – það var pínu krefjandi.“
Ertu ennþá að æfa fimleika?
„Já, ég er ennþá í fimleikum og er afreksmaður þar. Ég byrjaði að æfa fimleika þegar ég var þriggja ára. Ég æfði fótbolta og körfubolta líka, svo fór ég einstaka sinnum í golf og sund á sumrin en entist ekki lengi í því.“
Vinnur við draumastarfið
Á síðasta ári bauð Sigmundur Ernir Rúnarsson Magnúsi starf á sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem tökumaður, klippari og við stiklugerð.
„Ég er þar í 50% vinnu og samhliða því er ég að vinna sjálfstætt við þessa hluti. Ég er ennþá að mennta mig, taka námskeið og svona. Það gengur rosalega vel og það er markmið hjá mér að sækja um áframhaldandi nám í Kanada, í kvikmyndagerð. Ég legg mesta áherslu á að vera tökumaður og klippari. Svo kemur alveg fyrir í þáttunum Með okkar augum að ég er fyrir framan myndavélina, að taka viðtöl og svona. Ég er fjandi góður í því líka.“
Svo ertu mikill íþróttaáhugamaður – og heldur með Keflavík þótt þú sért úr Garðinum.
„Já, ég held með Keflavík þótt ég sé úr Garðinum. Þegar ég var yngri var ég mjög harður Víðismaður en svo þegar ég kynntist Joey Drummer þá færði ég mig alveg yfir í Keflavík og fór að mæta á Keflavíkurleiki. Einhvern veginn var ég Arsenal-maður áður en ég hitti Joey, fór svo yfir í Manchester [United] þegar ég kynntist honum,“ segir Magnús og hlær.
Þannig að Joey hefur haft rosalega góð áhrif á þig.
„Ég veit það, hann er minn helsti stuðningur. Ég er líka í björgunarsveit og hann hefur mikinn áhuga á svona björgunarstörfum, lögreglunni og sjúkraflutningum og svona. Það kom tímabil þar sem ég hafði rosalega mikinn áhuga á að mennta mig sem lögreglumaður en var samt með áhuga á kvikmyndagerð líka. Mamma og Joey voru að beina mér frá því að fara í lögregluna, það gæti orðið svo krefjandi þar sem ég er með tourette. Þá náði Joey einhvern veginn að snúa mér alfarið yfir í kvikmynda- og sjónvarpsgerðina – og ég held að ég sé ekkert að fara í lögregluna, verði bara í sjónvarpsgeiranum. Langtímamarkmiðið mitt er að fara út og vinna í Hollywood. Hún Hildur Guðnadóttir, tónsmiður, er mín helsta fyrirmynd.“
Ert þú sjálfur að semja tónlist?
„Það kemur fyrir en rosalega lítið. Ég legg meiri áherslu á að mixa tónlist eftir aðra. Þá fæ ég bara tónlist í hendurnar og laga t.d. hvernig röddin er, hljóðblanda með Auto Tune, en annars er ég mest í svona vídeólistum.“
En lærðir þú eitthvað í tónlist?
„Já, ég æfði á trommur fyrst. Byrjaði í sjöunda bekk og alveg fram í tíunda bekk, var þá að tromma með stuðningssveit Keflavíkur og Tólfunni í landsliðinu – og er ennþá að gera það. Ég hef ekkert verið að spila í hljómsveitum en á trommusett, þarf bara að klára að gera það upp. Joey hjálpar mér með það. Hann er alvarlegur trommuleikari, það má segja að hann sé aðeins betri en ég,“ segir Magnús hlægjandi en hann og Joey eru miklir og góðir félagar en vinskapurinn hófst þegar Joey tók Magnús í liðveislu.
„Hann byrjaði með mig í liðveislu fyrir sex árum síðan. Þegar hann sá að ég ætti trommusett og væri að æfa trommur þá sagði hann bara: „Ég tek hann!“ Við grínumst svolítið með það að hann hafi bara tekið mig af því að ég væri trommuleikari.
Hann byrjaði með mig í liðveislu og svo þróaðist það í þetta vinasamband okkar sem er núna. Ég þorði aldrei að fara á íþróttaleiki og vera innan um fólk út af öllum þessum kækjum sem ég var með út af tourette þegar ég var yngri. Það var alltaf verið að stríða mér og pínu einelti. Svo fór Joey með mig á minn fyrsta körfuboltaleik og við sátum bara einir út í horni. Gerðum bara það sem okkur langaði til og gátum farið hvenær sem er. Svo fékk ég tækifæri til að hitta í körfuna á þessum leik, þetta var fyrsti leikurinn sem ég fór á og ég hitti í fyrsta skotinu. Við þetta allt jókst sjálfstraustið rosalega mikið og ég fór að mæta á leiki, núna er ég farinn að tromma fyrir Keflavík og taka upp fyrir Keflavík TV. Ég mæti á alla körfuboltaleiki, alla fótboltaleiki, er að taka upp, tromma eða bara horfa á.“
Ertu á lyfjum við tourette eða ertu farinn að stjórna þessu betur?
„Ég er á lyfjum og svo reyni ég líka að passa mataræðið líka. Það kemur fyrir að ég fæ mér sætindi en það hefur mikil áhrif. Fólk man alveg eftir mér hoppandi í hringi, þetta eykst og minnkar. Eins og staðan er núna þá er þetta bara fínt, ég er farinn að ráða miklu betur við þetta.“
Ættleiddur frá Indlandi
Magnús Orri var ættleiddur frá Kalkútta á Indlandi þegar hann var um sex mánaða gamall og hann segist ekki getað hafa verið heppnari með fjölskyldu.
„Ég hef verið að reyna að komast að uppruna mínum en það hefur ekki tekist enn. Það er eitthvað nafn skrifað á blað sem við fáum þegar barnið er ættleitt en svo getur alltaf verið að það sé falsað. Þú veist, mamman sem fæddi mig vill kannski ekki að ég finni hana. Það er ekki vitað, við höfum ekki farið lengra með það. Það er gríðarleg fátækt þarna og staða kvenna oft og tíðum ekki góð – ég er kannski bara einn af þessum heppnu og ég á yndislega foreldra sem hugsa vel um mig.“
Magnús hefur nóg fyrir stafni en auk þess að sinna áhugamálum og vinnu hefur hann stofnað sitt eigið fyrirtæki, MOA Production.
„Ég er mikið að gera auglýsingar fyrir alls konar fyrirtæki svo það er nauðsynlegt að hafa fyrirtæki í kringum það. Það er nóg að gera, ég er einmitt að fara að gera auglýsingu fyrir hann Issa fish & chips. Ég er með mjög öfluga tölvu heima þar sem ég vinna allt þetta efni.
Svo keppti ég á síðustu Special Olympics í fimleikum. Ég ætla ekki að keppa næst en það gæti verið að ég fari með sem fjölmiðlamaður. Þá fyrir hönd Special Olympics á Íslandi og mun taka upp innslög og pósta á Instagram og Facebook og svoleiðs, auglýsa leikana aðeins.“
Elskar flugelda
Aðspurður hvort hann eigi fleiri áhugamál segir Magnús að hann elski að fara á flugeldasýningar.
„Ég elska flugeldasýningar og reyni á fara á eins margar og ég get. Frá því að ég byrjaði í Björgunarsveitinni Ægi fyrir átta árum síðan þá hef ég elskað flugelda. Ljósanótt, Sandgerðisdagar, Jökulsárlón – ég fer út um allt. Ég missi ekki af neinni flugeldasýningu, var á Akureyri um versló.“
Magnús sem er 21 árs kom út úr skápnum sem samkynhneigður á síðasta ári, við spurðum hann hvort það það hafi verið eitthvað sem var búið að velkjast fyrir honum lengi.
Var það erfitt skref að taka, að koma út úr skápnum?
„Nei, kannski pínu. Það voru margir farnir að spyrja mig út í þetta svo ég ákvað bara að pósta status á Facebook og leyfa öllum að sjá. Þessi status hefur vakið mesta athygli síðan ég fékk Facebook.“
Þannig að þú vissi þetta alveg, hafðir bara ekkert verið að auglýsa það.
„Já, ég vissi það alveg. Ég hafði bara ekki haft neina þörf fyrir að skilgreina mig fram að því.“
Og hefurðu mætt góðum skilningi?
„Já, bara miklum skilningi og fengið mörg skilaboð frá góðu fólki. Ég hef ekki upplifað neitt slæmt í sambandi við mína kynhneigð en ég er alltaf viðbúinn því að það komi upp eitthvað slíkt, þá þarf maður bara að tækla það eins og allir aðrir. Ég er mjög duglegur á mínum samskiptamiðlum að vekja athygli og útskýra hvað er tourette, hvað er einhverfa – skrifa langa statusa þar sem ég skýri hvernig það er svo fólk átti sig á hvað ég er að glíma við andlega og hvað aðrir geta verið að glíma við það sama og ég. Þú veist, hvað er svona erfitt við að koma út úr skápnum? Hvernig er að vera með einhverfu eða tourette? Ég skrifa bara út frá mínu hjarta og fæ alltaf góð viðbrögð. Það er alltaf gott að vera hreinskilinn,“ segir Magnús Orri sem hefur alltaf nóg fyrir stafni og fellur ekki verk úr hendi – enda hefur hann gaman af lífinu og lifir því svo sannarlega lifandi.