Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Flugeldarusl á víð og dreif eftir hátíðirnar
Flugeldar sem enda oft sem rusl á götum úti fram eftir vori.
Föstudagur 10. janúar 2014 kl. 10:20

Flugeldarusl á víð og dreif eftir hátíðirnar

Þegar áramót og þrettándi eru liðin grotnar flugeldarusl niður og verður víða að drullu og sóðaskap.

 Starfsmenn áhaldahúss hjá Reykjanesbæ sjá um að fjarlægja jólatré sem íbúar á svæðinu hafa komið út fyrir lóðamörk og hirða einnig flugeldarusl, en þó aðallega á opnum svæðum.

Virðist önnur hugsun en með annað rusl

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er úti um allt, sérstaklega á opnum svæðum. Við tökum flest allt þegar við sjáum það, en þegar þetta liggur upp við girðingar hjá fólki þá ætlumst við nú til þess að fólk hirði þetta sjálft. Við erum að hirða þetta upp langt fram eftir vori,“ segir Bjarni Karlsson, garðyrkjustjóri, sem fer með yfirumsjón í þjónustumiðstöð Reykjanesbæjar. „Það er eins og að margir haldi að það gerist bara sjálfkrafa að þetta sé tekið. Þetta er náttúrulega bara rusl og engum myndi detta í hug að skilja annað rusl eftir við lóðamörk sín,“ segir Bjarni. Sumt dagi uppi svo mánuðum skipti. „Okkar hlutverk er að hreinsa rusl af víðavangi og það gerum við, en við getum ekki hreinsað allan bæinn.“

Má setja í almennt sorp daginn eftir notkun

Að sögn Jóhanns Sævars Kristbergssonar hjá Brunavörnum Suðurnesja er fólki óhætt að setja flugelda, tertur og blys í ruslið daginn strax eftir að kveikt hefur verið í því. „Þegar síðasta bomban er sprungin í þessu þá slokknar glóðin fljótlega. Það er ástæðulaust að láta marga daga líða áður en þessu er hent. Það er ótrúlegt hversu mikið af þessu liggur á víð og dreif á götum.“

Að gefnu tilefni tekur Jóhann fram að svona rusl fer í almennt sorp en ekki blaðagáma. Í flugelda sé notaður leir í botninn sem gerir það að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu.

Þeir Bjarni og Jóhann hvetja íbúar Reykjanesbæjar til að hjálpast að við að koma þessu í betra horf. Það þurfi ekki mikið til ef hver og einn hugsi um sitt nærumhverfi.

VF/Olga Björt