Flugbúðir Keilis um helgina
– ótrúleg upplifun
Núna um helgina býður Keilir upp á Flugbúðir fyrir 16 ára og eldri. Flugbúðir eru hugsaðar sem helgarnámskeið fyrir allt flugáhugafólk og efri aldurstakmörk eru engin. Flugkennarinn Júlíus Gunnar Sveinsson heldur utan um námskeiðið.
„Dagskráin er stútfull af spennandi uppákomum,“ segir Júlíus Gunnar. „Hluta af tímanum notum við í kennslustofu, þar sem farið verður yfir flugnámið, öll helstu fög sem því tengjast og þangað fáum við góða gesti úr flugheiminum. Við fáum til okkar flugumferðastjóra sem segir frá lífinu í flugturninum og einnig kemur til okkar reyndur millilandaflugmaður, sem segir frá fjölbreyttu starfi sínu og svara spurningum þátttakenda.“
„Eftir góðan hádegisverð, förum við í vettvangsferðir báða dagana. Stefnan er að heimsækja Flugturninn og slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli. Við fáum að skoða flugskýli Icelandair og kynnast þeirri starfsemi sem þar er. Svo förum við í skoðunarferð um flugvallarsvæðið með leiðsögumanni, hann mun kynna fyrir okkur marga spennandi staði, sem fáir hafa tækifæri til að skoða. Við endum svo í verklegu aðstöðu Keilis. Þar skoðum við kennsluflugvélarnar og kynnum okkur hvernig ferlið er þegar farið er í loftið. Innifalið í námskeiðinu er svo kynnisflug með flugkennara.“
En hvað er svona sérstakt við þetta námskeið?
„Það merkilega er, að þó að ég sé bæði flugmaður og flugkennari, þá hef ég ekki heimsótt marga af þessum stöðum, fyrr en ég fór með síðustu flugbúðir í vettvangsferðir. Það var ótrúleg upplifun að sjá t.d. hvernig flugturninn virkar, skoða verkstæði Icelandair og fá góða leiðsögn um flugvallarsvæðið. Flugheimurinn svo lifandi og stór, að maður er aldrei búinn að sjá og upplifa allt,“ segir Júlíus Gunnar brosandi „Svo getum við alltaf lent í óvæntum uppákomum og aldrei að vita hvar við endum.“
Enn eru örfá sæti laus á námskeiðið sem verður haldið helgina 15. – 16. febrúar og tilvalið fyrir flugdellufólk á öllum aldri að taka þátt.
Allar upplýsingar á www.keilir.net/viskubrunnur