Flugbátur úr seinni heimsstyrjöldinni á Íslandi
Catalina-flugbátur af gerðinni PBY 5-A hefur staðið á Keflavíkurflugvelli frá því fyrir helgi en beðið er færis að fljúga vélinni til Narsarsuaq á Grænlandi. Aðeins um 25 slíkar vélar eru eftir í heiminum, en vélin sem er hér á landi var smíðuð árið 1943 og var notuð til að finna og sprengja kafbáta í seinni heimsstyrjöldinni. Flugbáturinn hefur einnig verið notaður í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood, en vélin var notuð í kvikmyndinni "Below" sem fjallar um kafbátahernað.Chuck Ellsworth er flugstjóri í ferðinni en með honum eru Robert Ramsay flugmaður, Clive Edwards og Mark Edwards flugvirkjar. Chuck er 67 ára gamall og er þetta síðasta alþjóðlega flugið hans. Hann hefur sérhæft sig í flugi á flugbátum og hefur hann kennt víða um heim á slíkar vélar. Að sögn Chuck er verið að ferja flugbátinn til Southfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum þar sem nýir eigendur taka við vélinni.
Árið 2000 flaug Chuck vélinni frá Suður-Afríku til Jeddah í Sádi-Arabíu en annar hreyfill vélarinnar bilaði þar. Um það leyti sem vélin var í Jeddah var pílagrímaflug á vegum Atlanta í fullum gangi og segir Chuck að það hafi komið sér vel. "Ég var að leita leiða til að koma hreyflinum til London þegar íslenskur flugvirki á vegum Atlanta kom og ræddi við mig. Hann sagðist geta aðstoðað mig í að koma hreyflinum á áfangastað fyrir ekki neitt. Hreyflinum var komið fyrir í einni af vélum Atlanta og flogið með hann til London. Þetta kom sér mjög vel fyrir mig, sérstaklega vegna þess að það hefði tekið langan tíma að koma hreyflinum úr landi, auk þess sem kostnaðurinn hefði orðið mikill," segir Chuck en í þakklætisskyni fyrir greiðann hafði hann samband við Arngrím Jóhannsson, stofnanda Atlanta, og bauð honum að fljúga vélinni þegar hann kæmi til Íslands. "Ég ákvað þegar hreyfillinn var fluttur með flugfélaginu að bjóða forstjóra félagsins að fljúga Catalina-flugbátnum. Ég talaði við Arngrím áður en ég kom hingað til lands en því miður þurfti hann að bregða sér af landi brott. Tilboð mitt stendur þó enn og Arngrímur á inni flug hjá mér á Catalina-flugbáti."
Texti og mynd: Jóhannes Kr. Kristjánsson
Árið 2000 flaug Chuck vélinni frá Suður-Afríku til Jeddah í Sádi-Arabíu en annar hreyfill vélarinnar bilaði þar. Um það leyti sem vélin var í Jeddah var pílagrímaflug á vegum Atlanta í fullum gangi og segir Chuck að það hafi komið sér vel. "Ég var að leita leiða til að koma hreyflinum til London þegar íslenskur flugvirki á vegum Atlanta kom og ræddi við mig. Hann sagðist geta aðstoðað mig í að koma hreyflinum á áfangastað fyrir ekki neitt. Hreyflinum var komið fyrir í einni af vélum Atlanta og flogið með hann til London. Þetta kom sér mjög vel fyrir mig, sérstaklega vegna þess að það hefði tekið langan tíma að koma hreyflinum úr landi, auk þess sem kostnaðurinn hefði orðið mikill," segir Chuck en í þakklætisskyni fyrir greiðann hafði hann samband við Arngrím Jóhannsson, stofnanda Atlanta, og bauð honum að fljúga vélinni þegar hann kæmi til Íslands. "Ég ákvað þegar hreyfillinn var fluttur með flugfélaginu að bjóða forstjóra félagsins að fljúga Catalina-flugbátnum. Ég talaði við Arngrím áður en ég kom hingað til lands en því miður þurfti hann að bregða sér af landi brott. Tilboð mitt stendur þó enn og Arngrímur á inni flug hjá mér á Catalina-flugbáti."
Texti og mynd: Jóhannes Kr. Kristjánsson