Flugatvik á stríðsárunum á Miðnesi rædd á sagnastund á Garðskaga
Flugatvik á stríðsárunum á Miðnesi verða umræðuefni í sagnastund sem verður haldin á veitingahúsinu Röstinni á efri hæð byggðasafnsins á Garðskaga næstkomandi laugardag, 21. október, kl. 15:00.
Bræðurnir Ólafur og Þorsteinn Marteinssynir hafa um árabil safnað upplýsingum um flugatvik á stríðsárunum við Ísland. Líklega er söfnun þeirra sú nákvæmasta sem til er um það efni. Þeir stóðu, ásamt Bandaríkjamanninum Jim Lux, fyrir uppsetningu módels og minningarmarks um flugvélina „Hot stuff“ á Stapanum við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þá hafa þeir haldið úti vefsíðu um þetta efni með myndum og texta.
Þorsteinn kemur á sagna-stundina, sýnir myndefni og segir frá því sem á gekk við landið á stríðsárunum. Flugvélar voru orðnar kröftugar sem bardagatæki á þeim tíma. Flugvöllurinn í Miðnesheiðinni hafði stórt hlutverk á stríðstímanum.
Allir velkomnir á Garðskaga, ekkert aðgangsgjald. Veitingahúsið og byggðasafnið verða opin.
Áhugamenn um sagnastund á Garðskaga.