Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Flottustu hátíðahöld landsins til heiðurs íslenska sjómanninum
Fimmtudagur 26. maí 2011 kl. 10:09

Flottustu hátíðahöld landsins til heiðurs íslenska sjómanninum

Sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti haldin í Grindavík 3.-5. júní nk.


„Sjóarinn síkáti er bæjarhátíð okkar Grindavíkinga sem við leggjum mikinn metnað í. Hún tókst virkilega vel í fyrra en þá komu yfir tuttugu þúsund gestir. Dagskráin hefur aldrei verið glæsilegri en í ár, hér er hin eina og sanna Sjómannadagshelgi með öllu tilheyrandi. Ég vil taka skýrt fram að þetta er fyrst og fremst fjölskylduhátíð en ekki unglingafylleríssamkoma. Hér er ströng gæsla og 20 ára aldurstakmark á tjaldsvæðinu,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Grindavíkurbæjar um bæjarhátíðina Sjóarann síkáta sem haldin verður í Grindavík helgina 3.-5. júní nk.

Sjóarinn síkáti hefur fest sig í sessi sem ein skemmtilegasta og fjölbreyttasta bæjarhátíð landsins. Dagskráin er ótrúlega fjölbreytt og jafnframt verður mikið lagt upp úr því að virkja bæjarbúa til þátttöku en bænum hefur verið skipt upp í fjögur litahverfi og fara bæjarbúar hamförum í skreytingum þessa dagana.

„Grindavík er eitthvert öflugasta bæjarfélag landsins og með tilkomu nýja tjaldsvæðisins sem opnað var í hitteðfyrra og svo nýju þjónustuhúsi í þessari viku erum við einnig að stimpla okkur á kortið sem öflugur ferðamannabær en hér er ótrúlega margt skemmtilegt að sjá og gera. Segja má að bæjarhátíðin Sjóarinn síkáti marki upphafið á skemmtilegu sumri hér suður með sjó," segir Þorsteinn.

Upphitun hefst á miðvikudagskvöldinu en fimmtudaginn ber upp á uppstigningardag og þann dag er einnig nóg um að vera. Svo verður líf og fjör á föstudagskvöldinu með skrúðgöngu litahverfanna niður á bryggju, bryggjuballi og skemmtunum. Á laugardeginum er bærinn undirlagður af ýmsum skemmtunum fyrir alla fjölskylduna. Má þar nefna ratleik, leiktæki fyrir börnin, glæsilega barnadagskrá, landsþekkta skemmtikrafta, keppnin Sterkasti maður á Íslandi, Brúðubíllinn verður á sínum stað, leiktæki og andlitsmálun fyrir krakkana, svo fátt eitt sé talið. Foreldrar og fullorðnir fá sinn skammt en þarna verða ýmsar uppákomur og sýningar. Um kvöldið verða svo böll á skemmtistöðum bæjarins.

Á sunnudeginum verða hefðbundin hátíðahöld á vegum Sjómanna- og vélstjórafélags  Grindavíkur ásamt flottri dagskrá á hátíðarsviðinu og ýmsu fleiru. Þessa helgi verður einnig Íslandsmeistaramót í flökun, netagerð, sjómannai, golfmót, sundmót, fótboltamót, körfuboltamót og ýmislegt fleira. Sjóaranum síkáta lýkur svo með glæsilegum minningartónleikum Guðrúnar Gunnarsdóttur og Ragga Bjarna um Ellý Vilhjálms í íþróttahúsinu á sunnudagskvöldinu.

Þorsteinn hvetur Suðurnesjamenn til þess að fjölmenna til Grindavíkur en hægt er að nálgast dagskrá Sjóarans síkáta á www.sjoarinnsikati.is
„Sérstaklega finnst okkur gaman að sjá brottflutta Grindvíkinga mæta til heimahaganna. Þá eru líka sjómenn og fjölskyldur þeirra í öðrum bæjarfélögum einnig hvattir til þess að koma til Grindavíkur til að halda upp á daginn því hvergi á landinu eru flottari hátíðahöld til heiðurs íslenska sjómanninum en hér í Grindavík,“ sagði Þorsteinn að endingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024