Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Flottur föstudagur á Ljósanótt
Fernir heimatónleikar heppnuðust afar vel.
Laugardagur 5. september 2015 kl. 10:07

Flottur föstudagur á Ljósanótt

Ljúf og góð stemning ríkti á meðal gesta Ljósanætur í gærkvöldi, á föstudagskvöldi. Auk blíðskaparveðurs átti án efa kraftmikil kjötsúpan frá Skólamat, sem yljaði á milli þrjú og fjögurþúsund manns, sinn þátt í því að fylla gesti af notalegheitum.

Gestir röltu Hafnargötuna í rólegheitum og gengu á milli þeirra tuga myndlistar-, handverkssýninga og sölutjalda sem þar eru opin.  Bæjarstjórnarbandið, skipað fulltrúum úr bæjarstjórn Reykjanesbæjar ásamt bæjarstjóra, voru meðal þeirra sem sáu um að gestir skemmtu sér á Bryggjuballi á smábátahöfninni. Þá var boðið upp á heimatónleika í gamla bænum sem tókust gríðarlega vel. Fjórar hljómsveitir spiluðu í tvígang og nærri 200 gestir sem keyptu sér aðgang röltu á milli. Eigendur heimilanna tóku á móti fólki og allir nutu tónlistar og skemmtilegrar stemmningar í gamla bænum.  Þá voru dansleikir af ýmsum toga m.a. með keflvísku hljómsveitinni Júdas og Hjálmum sem einnig rekja ættir sínar til Reykjanesbæjar.

Framundan er viðburðarríkur dagur í Reykjanesbæ. Hin einstaka Árgangaganga á Hafnargötu  hefst kl. 13:30 þar sem mannkynssaga nútímans tekur á sig mynd og árgangarnir hittast og þramma fylktu liði á hátíðarsvæðið þar sem við tekur fjölbreytt dagskrá, sýningar, uppákomur, tónlistarviðburðir, Skessan í hellinum býður í lummur, fornbíla- og bifhjólaakstur, leiktæki, Brúðubíllinn, Leikhópurinn Lotta og ótal margt fleira. Í kvöld verða stórtónleikar á útisviði þar sem fram koma Pakkið, Kolrassa Krókríðandi, Sveitapiltisins draumur – tónleikar tileinkaðir Rúnari Júlíussyni með söngvurunum Valdimar Guðmundssyni, Stefáni Jakobssyni, Magna Ásgeirssyni og Sölku Sól og botninn í dagskrána slær Jónas Sig  með ritvélum framtíðarinnar. Tónleikunum verður útvarpað beint á Rás 2.

Gleðin nær hámarki þegar HS ORKA lýsir upp Ljósanótt og býður gestum upp á  björtustu flugeldasýningu landsins. Þegar síðasti flugeldurinn hefur brunnið upp verða ljósin á Berginu kveikt en þau munu loga í allan vetur og lýsa upp mesta skammdegið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024