Flottur er fyrsti kossinn
Það er óhætt að segja að ástin svífi yfir vötnum og eigi sviðið hjá Leikfélagi Keflavíkur í söngleiknum Fyrsti kossinn, sem frumsýndur var í Frumleikhúsinu síðasta föstudagskvöld. Alger bítlabæjar, Rúnna Júll negla sem á eftir að slá í gegn.
Lög úr bítlabænum, frá hljómsveitum og tónlistarmönnum þaðan eða tengdum honum óma enn í dag á öldum ljósvakans. Enn er verið að fjalla um hvað þessir gaurar sem komu fram á sjónarsviðið fyrir nærri sextíu árum, sungu og gerðu í tónlist enda höfðu þeir mikil áhrif á líf ungs fólks. Rúnar Júlíusson og félagar hans í Hljómum urðu landsfrægir, ekki ósvipað og Bítlarnir frá Liverpool. Það er vissulega skemmtilegt að barnabarn Rúnna Júll skuli (ásamt kærasta sínum) semja söngleik tileinkuðum minningu afa síns, þessa dáða drengs.
Af nógu var að taka í tónlistinni og lögin í verkinu eru af löngum ferli kappans með hinum ýmsu hljómsveitum. Í Fyrsta kossinum eru sungin mörg af þekktustu lögum sem hann bæði söng og voru eftir félaga hans, Þorstein Eggertsson, Gunnar Þórðarson og fleiri eða hann sjálfur samdi. Kraftmikill leikarahópur flytur hvert lagið á fætur öðru sem margir áhorfendur áttu auðvelt með að taka undir og gerðu ýmist í hljóði eða sungu með. Sveitapiltsins draumur, Ég elska alla, Bláu augun þín, Án þín og Það þarf fólk eins og þig. Landsþekkt lög sem margir þekkja.
Brynja Ýr Júlíusdóttir, barnabarn Rúnars og Maríu Baldursdóttur, samdi söngleikinn með kærasta sínum, Guðlaugi Ómari Guðmundssyni. Brynja hefur alið manninn í leikhúsinu með foreldrum sínum en móðir hennar, Guðný Kristjánsdóttir, hefur verið prímusmótor félagsins í langan tíma og á að baki fjörutíu ár í félaginu. Þau Brynja og Guðlaugur Ómar höfðu bæði gengið með þessa hugmynd í kollinum og svo þegar þau rugluðu saman reitum var ekki aftur snúið. Þau fengu gott fólk með sér í að klára söngleik þar sem ákveðið var að lifandi tónlist yrði flutt og fjölbreytt lög frá löngum ferli Rúnars. Höfundarnir eru báðir í veglegum hlutverkum, hann í hljómsveitinni Grip sem skipuð er ungum mönnum af Suðurnesjum og hún leikur Hönnu söngkonu sem ákveður að skella sér til London skömmu fyrir hljómsveitakeppni. Gefur þannig annari píu pláss. Úr verður ástarsaga.
Hljómsveitin fer á kostum og gerir þetta lista vel, strákarnir leika á hljóðfærin og sumir þeirra lærðu á þau núna í haust og þeir syngja eins og enginn sé morgundagurinn. Aðalhlutverkin í söngleiknum eru í höndum þeirra Sigurðar Smára Hanssonar sem leikur aðal gaurinn í hljómsveitinni, Róbert eða Robba rokk og Töru Sólar Sveinbjörnsdóttur. Hún leikur Júlíu, systur trommarans Adda og kemur óvænt inn í stað aðal söngkonunnar á æfingatímanum. Verður skotin í Robba og úr verða átök.
Heildarflutningurinn er mjög góður og rúllar flott í gegn. Það er áskorun að taka þekkt lög og flytja þau svo vel fari. Sigurður Smári fer mikinn í leik, tónlistarflutningi og söng og gerir það mjög vel og Tara Sól stóð sig einnig afar vel þó hún sé ekki með eins mikla reynslu og hann. Það væri auðvelt að telja upp alla hljómsveitarmeðlimina og aðra sem eru á sviðinu. Undir leikstjórn Karls Ágústs Úlfssonar hefur tekist að búa til geggjaðan keflvískan söngleik. Algera neglu. Tónlistarstjórar verksins eru félagarnir Björgvin Ívar Baldursson og Smári Guðmundsson. Dans kemur sterkur inn í verkinu og gerir gott verk enn betra en höfundur hans er Brynhildur Karlsdóttir, dóttir leikstjórans.
Leikfélag Keflavíkur fagnar sextíu ára afmæli á árinu og er vel við hæfi að mæta með svona flott afmælisverk sem hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi. Sýningin er sú hundraðasta hjá félaginu og tafðist aðeins út af dottlu því eins og skáldið sagði: „Þó jarðskjálftar, eldgos, frost og fárviðri sé fréttaefni, þá er fegurðin, ástin, já og sólskinið hið rétta efni.“
Þegar þetta er skrifað er þegar orðið uppselt á margar sýningar og því er ekki ólíklegt að þær verði margar, eitthvað fram á aðventuna. Lokasetningin er frá höfundunum sem hvetja fólk til að mæta á söngleikinn og þau eiga vel við: „Það þarf fólk eins og ykkur fyrir fólk eins og okkur.“
Páll Ketilsson.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á frumsýningunni.