Flóttafólk bauð til matarveislu í Grindavík
Grindvíkingar hafa svarað kallinu
Flóttafólk frá ýmsum löndum tók að streyma til Grindavíkur í kringum áramótin og hefur hópurinn komið sér vel fyrir í Festi en þar var áður rekið hótel. Það er greinilegt að vel er haldið utan um þetta fólk og Rauði krossinn á ekki hvað sístan þátt í því. Auglýst var eftir sjálfboðaliðum í Grindavík og hafa margir svarað kallinu. Hópurinn hefur verið í sambandi við höfuðstöðvarnar í Reykjavík og inn í aðstoðina fléttaðist bosnísk kona, Azra Sehic, og fór hún yfir verkefnið. Þá var ein þeirra grindvísku, Dagný Rut Ólafsdóttir, tekin tali.
Azra hefur sest að á Íslandi en hún hefur unnið vítt og breytt um heiminn fyrir Sameinuðu þjóðirnar. „Ég er frá Bosníu í fyrrum Júgóslavíu og man vel eftir þegar stríðið braust út heima. Við þurftum að flýja tólf sinnum og flytja svo ég man hvernig það var að vera svöng, ekki með þak yfir höfuðið, hrædd o.s.frv. Við flúðum þó ekki frá Júgóslavíu og vorum þar allan tímann á meðan stríðið stóð yfir. Þessi reynsla spilar pottþétt hlutverk í að ég valdi að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar en ég hef starfað þar síðan 2011 og kann mjög vel við það. Ég hef unnið vítt og breytt um heiminn, kynntist íslenskum eiginmanni í Líberíu og giftist honum árið 2014. Við höfum búið á Íslandi síðan fyrir COVID og ég gat unnið héðan en að undanförnu hef ég unnið fyrir Rauða krossinn og hef því komið mjög mikið að aðstoð við erlent flóttafólk. Þegar flóttafólkið kom til Grindavíkur setti Rauði krossinn sig strax í samband við Grindvíkingana, auglýsti eftir sjálfboðaliðum til að aðstoða fólkið og var frábært hvernig svörunin var. Þessar flottu konur sem eru hér með okkur í dag hafa verið frábærar og stutt mjög vel við bakið á flóttafólkinu og hugmyndin að þessari matarveislu í dag kemur í raun frá flóttafólkinu. Þið trúið ekki hversu þakklát þau eru fyrir móttökurnar, þau vildu einfaldlega gera eitthvað til að þakka fyrir sig og hér erum við í dag. Ég er sannfærð um að það verði meira um svona skemmtilegar uppákomur, þetta fólk vill gefa af sér. Það er svo athyglisvert í mínum huga þegar kemur að umræðu um flóttafólkið, en sumir eru smeykir fyrirfram vegna vanþekkingar, að þetta fólk vill ekkert frekar en auðga líf þeirra sem eru fæddir og uppaldir í viðkomandi landi. Auðvitað vilja þau halda í sínar hefðir, það er bara eðlilegt, en hinn hefðbundni Íslendingur á að líta á þetta sem tækifæri því þetta fólk vill ekkert meira en auðga líf Íslendingsins. Ég tel þennan dag í dag sanna svo ekki verður um villst að það er raunin. Hér höfum við fengið að smakka mat frá hinum ýmsum stöðum í heiminum og fengið að njóta erlendrar tónlistar. Ég held að allir séu mjög glaðir með hvernig til tókst,“ sagði Azra.
Fjölbreyttar uppákomur
Dagný Rut Ólafsdóttir hefur búið í Grindavík að undanförnu og var ein þeirra sem svaraði kalli Rauða krossins. „Ætli það hafi ekki verið í febrúar sem ég kom að starfi Rauða krossins hér í Grindavík og hefur þetta verið mjög gefandi. Við höfum staðið fyrir ýmsum uppákomum, farið með hópinn í fjallgöngur svo dæmi sé tekið og yfir höfuð hefur þetta verið mjög skemmtilegt. Þetta fólk er svo þakklátt, spurði hvernig þau gætu þakkað fyrir þær frábæru móttökur sem það hefur fengið hér og fljótlega þróaðist hugmyndin í að þau myndu bjóða okkur í mat. Fyrst var þetta spurning hvort þau myndu elda einn rétt eða við myndum bjóða þeim í einhvern íslenskan þjóðarrétt en svo vatt þetta bara upp á sig. Okkur fannst þetta frábær hugmynd, þurftum auðvitað fjármagn til að kaupa hráefnið og Azra reddaði því úr Reykjavík, bæði Rauði krossinn og svo ónafngreindur aðili sem styrkti verkefnið. Við höfum fundið fyrir mikilli velvild, við héldum t.d. bingó fyrir hópinn í Festi og fyrirtækin gáfu vinninga í það. Allir sem eru hér í dag að njóta matar, drykkjar, tónlistar og annarar erlendrar menningar eru alveg í skýjunum og spyrja hvenær þetta verði gert aftur. Það verður spennandi að sjá hvað við gerum næst,“ sagði Dagný.