Flott hjá krökkunum!
Frábær aðsókn hefur verið á söngleikinn Bugsy Malone, sem unglingadeild Leikfélags Keflavíkur sýnir nú í Frumleikhúsinu í Keflavík. Það er gaman hvað fólk er búið að vera duglegt að fara í leikhús til þess að sjá krakkana leika og það gleður unga leikara að fá svona mikla aðsókn, hlýjar móttökur hvetja þau til dáða.
Það var tignarlegur og risastór hópur á leiksviðinu, sem hneigði sig í lok sýningarinnar sl. sunnudag við mikið lófaklapp áhorfenda. Manni varð hugsað til leikstjórans sem tókst að halda vel utan um svona stóran hóp og kalla fram leikarann í ungum krökkunum. Þau voru langflest að stíga sín fyrstu spor á leiksviði og gerðu það með prýði.
Búningar og öll umgjörð var skemmtileg. Söngatriðin voru mjög vel flutt, tónlistin í sýningunni er sérlega skemmtileg og mörg laganna þekkt.
Nú fer sýningum fækkandi og því um að gera að skella sér með stórfjölskylduna í Frumleikhúsið, lyfta sér upp á góðum degi.
Takk fyrir mig krakkar!
Marta Eiríksdóttir.